132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:00]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að umræðan um grunnskólalögin byrji mjög hressilega og skemmtilega og snúist strax um grundvallaratriðin í skólapólitíkinni. Frjálst skólakerfi, sagði Morgunblaðið í leiðara á þriðjudaginn var, 31. janúar, ágætum leiðara að mörgu leyti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skólar, sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögunum, eru augljóslega að sækja í sig veðrið hér á landi. Það sást vel á myndarlegri ráðstefnu, sem Samtök sjálfstæðra skóla héldu síðastliðinn laugardag. Þar var m.a. fjallað um reynsluna af rekstri sjálfstæðra skóla, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Skilningur fólks á því að einkarekstur í skólakerfinu þýðir ekki að verið sé að einkavæða menntun í landinu, fer greinilega vaxandi.“

„Það er víðtæk samstaða um að hið opinbera eigi áfram að fjármagna grunnskólamenntun,“ segir stuttu síðar í þessum ágæta leiðara sem rekur svo m.a. málflutning Margrétar Pálu og margra fleiri, en Margrét Pála er skólastjóri og forustumaður hinnar merkilegu Hjallastefnu sem hefur náð, held ég að sé óhætt að segja, framúrskarandi árangri í íslenskri skólapólitík, í skólasamfélagi á leikskólastigi og nú síðast í fyrstu bekkjum grunnskóla. Ég er mjög eindreginn stuðningsmaður þess að sú stefna megi vaxa í okkar skólakerfi.

Ég er sjálfur sannfærður um að fjölbreytni í starfsemi grunnskóla sé mikilvæg og svigrúm, t.d. hverfisskólanna til aukins sjálfstæðis, hefur verið aukið í mörgum sveitarfélögum, í stærri sveitarfélögum, þar sem um er að ræða nokkra hverfisskóla, sem er mjög jákvætt. Hverfisskólarnir búa við töluvert sjálfstæði sem má auka verulega með breytingum á námskrá þar sem t.d. yrði lagt meira upp úr valfrelsi nemenda, auknu list- og verknámi o.fl. Þannig er auðveldara að finna réttu fjölina fyrir hvern nemanda sem þangað kemur, svo ólíkar sem þarfir þeirra eru. Augljóslega á það áfram að vera þannig, og því er ég sammála, að grunneiningin í grunnskólanum er hverfisskóli þar sem sveitarfélagið tryggir jafnrétti til náms og það er athyglisverð hugmynd að fleiri en einn skóli sé í hverju hverfi til að auka valfrelsi foreldra um skóla fyrir börnin sín. En jafnframt er ég sannfærður um það — og þetta frumvarp sem við ræðum hér er að sumu leyti lagafrumvarp til að sníða ramma utan um rekstur einkarekinna grunnskóla, hvað sem menn annars vilja kalla skólana, sjálfstæða eða einkarekna. Hugtakið sjálfstæðir skólar fer í taugarnar á þeim sem starfa í opinberu skólunum. Eru þeir þá ósjálfstæðir, spyrja þeir. Þannig að mér finnst ágætt að kalla þá bara einkarekna grunnskóla enda er ekkert neikvætt við það orð í mínum huga og skiptir í sjálfu sér engu máli.

Ég hef kallað eftir því að það verði sniðinn rammi utan um starfsemi skólanna, ég held að það sé nauðsynlegt. Til viðbótar við hverfisskólana eiga að fá að blómstra, sem valkostur utan ramma þeirra, einkareknir skólar þar sem nemendum er ekki mismunað á efnalegum forsendum. Sjálfstætt starfandi grunnskólar, einkareknir fyrir opinbert fé, eru að mínu mati góð viðbót við hverfisskólana. Grunnskólar sem eru reknir utan um tiltekna hugmyndafræði standa öllum opnir og innheimta ekki skólagjöld, skóli á borð við barnaskóla Hjallastefnunnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega ef við ræðum nú um skólagjöld á almennum grunni yfir skólastigin öll, að hafa í huga að þau eiga ekki við á grunnskólastiginu. Ég held að stéttlaus grunnskóli sé ein af mestu auðlindum íslenskrar þjóðar. Ég er alveg sannfærður um það. Stéttlaus grunnskóli þar sem börnin mætast á jafnréttisgrundvelli algjörlega óháð efnahag foreldra sinna.

Þess vegna var t.d. samningurinn sem Margrét Pála og Hjallastefnan gerðu við Garðabæ á sínum tíma ágætur að mjög mörgu leyti. Þar er kveðið á um að skólinn fái greitt að fullu með hverjum nemanda en innheimti ekki skólagjöld og skuldbindi sig einnig til að mismuna ekki nemendum eftir fötlun eða öðrum aðstæðum. Það hefur ekkert verið sjálfsagt mál að slíkir samningar náist. Það er hefð fyrir því að sumir einkareknu skólarnir innheimti skólagjöld o.s.frv. Enda hefur þetta verið nokkuð frjáls og óhefðbundin starfsemi fyrir utan rammann og hefur ekki fyrr en nú verið gerð tilraun til að sníða einhvern fjárhagslegan ramma utan um slíkan rekstur. Hvort sem það er nú rétta leiðin eða ekki — er það klárlega ekki að öllu leyti, t.d. er það mjög óheppilegt að í 23. gr. í frumvarpinu séu hlutirnir lagðir fram með þeim hætti að gengur þvert á forræði sveitarfélaga. Það er leiðinlegt að umræðan þurfi að snúast um það í stað þess að snúast um skólapólitík. Töluvert hefur verið rætt um þetta og ég ætla ekki að bæta neinu við þá umræðu. Það hljóta menn að leysa í meðförum nefndarinnar og fyrir 2. umr. þannig að það sem hér er lagt til þurfi ekki að túlka sem árás á sjálfsforræði sveitarfélaga. Það hlýtur að vera hægt að leysa rekstrarlegan ramma utan um starfsemi einkarekinna skóla á annan hátt. Ég treysti því að nefndinni auðnist það verkefni og þegar við förum í 2. umr. um málið verði búið að leysa það. Enda hafa Samtök íslenskra sveitarfélaga lagst af alefli gegn því ákvæði laganna. Það er því eiginlega dæmt til að fara út, held ég.

En aukin fjölbreytni á grunnskólastigi getur að mínu mati af sér betra menntakerfi. Þar sem einkareknir skólar blómstra, sem eru reknir utan um tiltekna hugmyndafræði, eins og hugmyndafræði Hjallastefnunnar sem er mjög merkileg hugmyndafræði, býðst betri menntun fyrir börnin. Ég held að Hjallastefnan skili af sér mjög góðum skólum, vel menntuðum börnum og sá aðskilnaður kynja sem þar er lagður til eigi mjög vel við í mörgum tilfellum. Aðrir einkareknir grunnskólar byggja á öðrum hugmyndafræðilegum grunni og það er með engu móti hallað á opinberu hverfisskólana með því að styðja við bakið á einkareknum grunnskólum. Þeir eru einfaldlega góður valkostur.

Við höfum séð hvernig þróunin hefur verið á Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn er nú, að ég held, fjórði hver grunnskólanemandi í einkareknum grunnskóla. Það er gífurleg fjölgun og ég held að talan yfir landið allt í Danmörku sé 10%, að 10% danskra grunnskólanema séu í einkareknum grunnskóla. Sambærileg tala á Íslandi er 1%. Það er mjög lágt hlutfall, mjög lágt hlutfall. Og hvort sem við berum okkur saman við Bretland, Holland eða Norðurlöndin, t.d. Svíþjóð, það sósíaldemókratíska stórveldi, þá eru þessar tölur miklu hærri. Enda þarf einkarekstur á grunnskólastigi alls ekki að ganga gegn jöfnuði í samfélaginu eða stéttlausum grunnskóla. Því fer svo víðs fjarri ef rétt er að málum staðið. Þess vegna finnst mér það ákvæði mikilvægt í frumvarpinu að taki skólinn til að mynda við fullum framlögum, eða yfir ákveðinni upphæð eða prósentum af rekstrarkostnaði, þá skuldbindi hann sig, eins og Hjallastefnan gerir, til að innheimta ekki skólagjöld. Ég held að skólagjöld á grunnskólastigi séu ákaflega óheppileg og það eru þau sem búa til mismuninn. Það eru þau sem skapa stéttskiptingu, það eru þau sem raða börnum í skóla eftir efnahag foreldra þeirra. Það er ákaflega óheppilegt og það er þróun sem ég er eindregið á móti. Þess vegna megum við ekki eyðileggja merkilega skólaþróun, að upp rísi einkareknir grunnskólar utan um tiltekna hugmyndafræði sem valkostur við hina opinberu og góðu grunnskóla sem reknir eru í landinu, með því að fara að búa til einhverja elítuskóla þar sem börnum er mismunað eftir efnahag foreldra sinna. Það er algerlega óviðeigandi. Gegn þeirri þróun eigum við að berjast. Ég er á móti því að skólagjöld séu viðhöfð í einhverjum verulegum mæli á grunnskólastigi og helst vil ég að þau séu engin. Markmið grunnskólans er allt annað en það að draga börn í dilka, raða börnum í bekki, raða börnum í skóla eftir efnahag foreldranna og aðstæðum á heimilinu. Það er algerlega fráleitt. Börnin eiga að vera saman, óháð stétt, í grunnskólum landsins. Það er grundvallaratriði.

Þess vegna er ég ánægður með að komið sé fram frumvarp sem opnar á þessi mál þó svo að þessa gölluðu 23. gr. sé þar að finna. Það getur nú ekki verið að menn láti steyta á henni. Það eru til aðrar leiðir. Það eru til leiðir sem ná sama markmiði án þess að ganga gegn sjálfsforræði sveitarfélaga. Það eru sveitarfélögin sem reka grunnskólana og það er ekki hægt að beita þau þvingandi, miðstýrandi aðgerðum að ofan. Það þarf að sníða rammann í sátt við sveitarfélögin, hafa þau með í ráðum og finna leið til að sníða heppilegan ramma utan um einkareknu grunnskólana til þess að efla þá og styrkja þannig að eftir einhver ár eða áratugi sé mun hærra hlutfall íslenskra grunnskólanema í einkareknum grunnskóla heldur en nú er, eða sjálfstætt starfandi grunnskóla eða hvaða orð sem menn vilja nota um það.

Það er leiðinlegt þegar umræðan snýst um togstreitu um orð. Hingað til hafa menn talað um einkarekna grunnskóla og ég hef ekkert við það orð að athuga, akkúrat ekki neitt. Mér finnst undarlegt að sjálfstæðismenn séu feimnir við að nota það orð yfir þessa grunnskóla þótt þeir séu ekki reknir í ágóðaskyni heldur fyrir opinbert fé eins og ég las upp úr áðan í leiðara Morgunblaðsins. Einkarekstur í skólakerfinu er ekki einkavæðing, ég er algerlega á móti einkavæðingu grunnskólanna og ég er á móti því að menn innheimti skólagjöld á grunnskólastigi. Það á að fara aðrar leiðir.

En ég er stuðningsmaður þess að starfsemi einkarekinna grunnskóla sé efld og þeim sé sniðinn slíkur rammi. Valfrelsi á grunnskólastiginu er jafnmikilvægt og valfrelsi á öðrum skólastigum. Það er bullandi valfrelsi á leikskólastiginu, mjög grasrótarmiðað og sjálfsprottið skólastig, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom ágætlega inn á í sinni ræðu. Það er mjög gaman að fylgjast með þróuninni þar. Þar hefur gerjunin kannski verið mest á öllum íslenskum skólastigum á undangengnum árum. Fjölbreytnin er mest þar enda kannski aðeins öðruvísi að því leytinu.

Það má ekki láta umræðuna um einkarekna grunnskóla snúast um það hvort verið sé að ráðast að sjálfsforræði sveitarfélaga, eins og er verið að gera í þessu frumvarpi. Það er mjög óheppilegt og þarf að koma fram. Það kom á óvart að svo óvarlega væri stigið til jarðar án þess að haft væri samráð við sveitarfélögin í landinu, Samband íslenskra sveitarfélaga og stóru sveitarfélögin klárlega þar sem einkaskólarnir eru. Þeir eru ekki í litlu sveitarfélögunum. Reykjavíkurborg rekur einn þriðja af grunnskólunum í landinu. Þrátt fyrir þá djúpstæðu andúð, held ég að sé óhætt að segja, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur á Reykjavíkurlistanum, sem fer með stjórn hér í Reykjavík, hljóta yfirvöld að þurfa að brjóta odd af oflæti sínu og hafa samráð við stjórnvöld í langstærsta sveitarfélaginu, sem rekur þriðja hvern grunnskóla á Íslandi. Það er nú ekki hægt að biðja um mikið minna. Það ætti að vera sjálfsagt mál.

Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því. Málið fer nú til nefndar og vonandi mun sú nefnd ganga þannig fram. Enda hefur hæstv. nefndarformaður unnið með sanngjörnum og skeleggum hætti í vetur og ekki á öðru von en hann geri það í þessu máli eins og öðru. Málið kemur þá vonandi miklu betur út úr nefndinni þannig að hægt verði að styðja það, þ.e. ef frumvarpinu verður breytt og árásinni á sjálfsforræði sveitarfélaga verður hrundið. Við eigum fyrst og fremst að vera ræða um valfrelsi í grunnskólum og uppgang, tilverurétt og uppbyggingu einkarekinna grunnskóla á Íslandi. Við eigum að vera að ræða skólapólitík. Ég hef gert mjög skýra grein fyrir mínum viðhorfum í þá veru í þessari ræðu og hef fjallað um það áður, bæði í ræðu og riti.

Við munum fjalla ítarlega um þetta mál í nefndinni. Ég vil líka spyrja hvort það hafi verið leitt til lykta hvort endilega þurfi að leggja fram svo stífa reiknireglu fyrir einkareknu skólana þegar engin reikniregla er fyrir aðra grunnskóla í landinu. Það er engin reikniregla í lögum um grunnskóla fyrir sveitarfélögin að öðru leyti. Það er mjög mismiklu fé varið til grunnskólamenntunar, stundum eftir hagkvæmni og stærð hagkvæmninnar í stærri sveitarfélögunum. Sum sveitarfélögin eru komin upp í það að 80–90% af rekstrarkostnaði þeirra fara í grunnskóla, litlu sveitarfélögin sem eru á heljarþröm, allt of litlu. Þannig að ráðherra hlýtur að svara því af hverju þarf reiknireglur fyrir einkareknu skólana en ekki fyrir hina? Þarf ekki að huga að þessu? Þarf ekki að skoða það sérstaklega? Af hverju er ekki tekið tillit til þess kostnaðar, í frumvarpinu, sem kannski skiptir mestu máli þegar einhver samtök ætla að stofna einkarekinn grunnskóla, sem er stofnkostnaðurinn. Ég held að við hljótum að staldra við það líka, hvort ekki þurfi að koma til ákvæði um hann hvort sem ríkisvaldið kæmi að því máli eða ekki, a.m.k. ef hugur fylgir máli í því að efla grunnskólamenntun og valfrelsi á grunnskólastigi.

En það er ekkert fordæmi fyrir því að sjálfsforræði sveitarfélaganna sé skert eins og lagt er til í 23. gr. hér. Þess vegna hlýtur sú grein að fara í mjög rækilega endurskoðun í nefndinni. Það er í rauninni fingurbrjóturinn í frumvarpinu eins og hefur komið fram í umræðunni hér í dag.

En meira um það síðar, virðulegi forseti.