132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:17]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reykjavíkurborg hefur stórhækkað framlög sín til einkareknu grunnskólanna í borginni á síðustu missirum. Ég fagna því. Skólarnir hafa starfað í marga áratugi og því ekki þannig að rekstrarfyrirkomulag þeirra og hefð fyrir innheimtu skólagjalda sé tilkomin út af stjórnarháttum Reykjavíkurlistans. Það er miklu eldra mál. Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði borginni nánast án hlés til 1994, að undanskildu kjörtímabilinu 1978–1982. Sú hefð og sá rammi sem komst á skipan skólamála einkarekinna grunnskóla í Reykjavík varð til í tíð Sjálfstæðisflokksins, án þess að ég velti því mikið fyrir mér.

Reykjavíkurlistinn tók við ákveðnum hefðum, ákveðnu skólakerfi og hélt áfram á þeirri braut. Ákveðin togstreita myndaðist, sérstaklega þar sem enginn rammi er utan um rekstur skólanna. Þeir hafa fengið að þróast án þess að sá rammi sé til staðar, sem getur í sjálfu sér verið ágætt. Það þarf ekki endilega að sníða þann ramma strax og þetta eru góðir skólar.

En ég held að tími sé kominn til þess, þótt Reykjavíkurlistinn hafi unnið þrjá glæsilega sigra í Reykjavík og sópað Sjálfstæðisflokknum frá völdum árið 1994, að sjálfstæðismenn líti upp úr brunarústunum og fari að ræða um skólamálin óháð því að láta það pirra sig að Reykjavíkurlistinn fari með völdin, hafi gert og muni líklega gera áfram í nýrri mynd eftir kosningarnar í vor.

Skólapólitíkin skiptir máli. Ég styð að við stöndum við bakið á einkareknum grunnskólum, búum til ramma þar sem við styrkjum rekstrarlega stöðu þeirra og aðra tilvistarlega stöðu skólanna sem miði að því að eftir einhvern tíma verði ekki innheimt skólagjöld í grunnskólum, einkareknum eða öðrum, líkt og vísað er til í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ, burt séð frá því hvernig ástandið hefur verið í marga áratugi í skólunum í Reykjavík.