132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:19]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú minna hv. þingmann á að rekstur grunnskóla var á vegum ríkisins þar til fyrir nokkrum árum. Á þeim tíma man ég ekki eftir því að í gangi hefði verið umræða um að rekstur Landakotsskóla og Ísaksskóla væri í einhverjum vandræðum. Ég ætti þó að muna það vegna þess að mín börn voru í Ísaksskóla og ég myndi eftir þeirri umræðu.

Það var ekki fyrr en skólinn fór yfir til sveitarfélaganna, þegar Reykjavíkurborg og R-listinn fóru að hafa eitthvað um samskipti á milli einkaskólanna og sveitarfélagsins að segja, að vandræðin byrjuðu. Það er rétt að setja hlutina fram með réttum hætti.

Það er ekkert launungarmál, það vita allir, að R-listinn hefur gert aðför að einkareknum skólum í Reykjavík þótt hann hafi að einhverju leyti séð að sér síðustu missiri. Það er alls ekki nóg. Ég vildi benda á þessa þversögn, annars vegar í málflutningi á þinginu hjá hv. þingmanni, sem ég ber mikla virðingu fyrir. Á hinn bóginn bendi ég á að eitt er orð og annað verk. Í verki er það svo að í sveitarfélaginu Reykjavík stendur R-listinn, með Samfylkinguna í forsvari í skólamálum, að aðför að einkareknum skólum. Það er ekki hægt að tala í eina átt og framkvæma í hina. Ég held að Samfylkingin ætti að fara að átta sig á í hvora áttina hún vill fara í þessum málum.