132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:23]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér stendur yfir umræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla. Þetta er athyglisvert frumvarp fyrir margra hluta sakir. Ég tel að því megi í raun lýsa með einu orði, þ.e. orðinu sveigjanleiki. Markmið þessa frumvarps er augljóslega að auka sveigjanleika í starfi grunnskóla.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu mikilvægt er að auka sveigjanleika og hafa til staðar sveigjanleika í rekstri skóla og í starfi skóla á öllum sviðum, bæði í ytra og innra starfi, ef svo má að orði komast. Því miður hefur það að mínu mati hamlað nokkuð skólastarfi að ýmislegt í lagaumhverfi og hefðum hefur bundið skólastarf, sem að vísu hefur leitt til ákveðinnar festu en hefur líka verið ákveðinn dragbítur á framfarir og ekki síst þann sveigjanleika sem er svo nauðsynlegur í skólastarfinu.

Eitt af því sem skapað hefur þennan stirðleika, ef svo má að orði kveða, eru svokallaðir kjarasamningar, þ.e. hin smásmugulega upptalning á því sem fram fer í skólastarfi sem hefur verið fært í texta í kjarasamningum. Kennslustundir hafa verið bundnar og í rauninni hvert einasta viðvik mælt. Þetta lýtur einnig að því sem kannski er stóra pólitíska málið í þessari umræðu, eins og fram hefur komið. Það er um rekstrarformið. Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé reynt, án þess að ógna með nokkrum hætti kjarasamningum, að auka sveigjanleikann þannig að liðka megi til og gera skólastarfið meira lifandi en raun ber vitni.

Ef við víkjum fyrst að því stóra pólitíska máli sem lýtur að ákvæðum er snerta rekstrarþættina, þ.e. ef grunnskóli er rekinn af öðrum en sveitarfélagi, einkaaðilum, hvort sem það eru einstaklingar eða samtök þeirra, kemur upp sú stóra pólitíska spurning hvort menn vilji að einkaaðilar annist rekstur grunnskóla. Ekki er annað að heyra af umræðunni, með örfáum undantekningum, en að menn vilji opna fyrir þann möguleika að hafa sveigjanleika í forminu, að aðrir en opinberir aðilar komi beinlínis að rekstri grunnskólanna, en þá er að sjálfsögðu byggt á einhvers konar samningi. Hvað grunnskólana varðar þá er samningurinn við sveitarfélögin sem leggja að sjálfsögðu til meginuppistöðuna í fjármögnun þeirra.

Það er og löng og góð hefð fyrir því að einkaaðilar reki skóla. Þar nægir að nefna Ísaksskóla í Reykjavík sem getið hefur sér afar gott orð þá áratugi sem hann hefur starfað, þar áður Ingimarsskóli. Við þekkjum þetta hjá sveitarfélögum sem stjórnað er af fulltrúum flestra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Þessi leið hefur verið reynd á leikskólastiginu og verður ekki betur séð en að þær tilraunir hafi gefið góða raun.

Ef við gefum okkur að í sjálfu sér sé ekki ágreiningur um að heimila slíkt form, eins og gert hefur verið, er næsta spurning því tengd, þ.e. um hvernig eigi að fjármagna slíka skóla. Ég tek því undir það ákvæði sem kemur fram í frumvarpinu, að tryggja slíkum skólum ákveðna lágmarksupphæð. Af hverju er nauðsynlegt að taka slíkt fram? Eins og fram hefur komið er það vegna þeirra nemenda sem þar stunda nám, að þeir hafi nokkra tryggingu fyrir því að skólinn sé rekinn fyrir það lágmarksfjármagn sem þarf til að halda uppi heilbrigðu skólastarfi.

Nú kunna einhverjir að segja, það hefur svo sem komið fram í umræðunni, að með því sé ráðskast með sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég er ekki alveg sammála því vegna þess að það er undir hverju og einu sveitarfélagi komið hvort það vill yfir höfuð gera samning við einstaklinga eða samtök þeirra um rekstur einkaskóla. Hins vegar er það að sjálfsögðu skylda ríkisins, hins opinbera, menntamálaráðuneytisins, að fylgjast með innihaldi og gæðum slíkra skóla. Menntamál eru jú á ábyrgð menntamálaráðuneytisins. Með þessu er fest í sessi form sem hefð er komin fyrir en um leið lagður grunnur að ákveðnum gæðum.

Af öðrum þáttum sem komið hafa til umræðu og menn hafa varpað fram spurningum um er hvort festa beri í lög að við grunnskóla skuli starfa aðstoðarskólastjóri. Með því ákvæði í þessu frumvarpi yrði sú skylda afnumin. Ég verð að segja að sem skólamaður til margra ára er ég hlynntur þessu. Ég tel að með þessu ákvæði opnist fyrir ákveðinn sveigjanleika. Í fyrsta lagi hafa menn bent á að í smærri skólum sé ekki endilega nauðsynlegt að hafa aðstoðarskólastjóra. Í ýmsum skólum hafa menn þó breytt þessum hefðbundna stjórnunarstrúktúr, sem byggist á að við skóla starfi aðstoðarskólastjóri og þannig koll af kolli. Upp hefur komið vilji til að dreifa stjórnunarábyrgð með öðrum hætti, fletja stjórnunarstrúktúrinn meira út, fela fleiri aðilum ábyrgð og dreifa starfi yfirstjórnenda á fleiri aðila. Það er mjög eðlilegt að í lögum sé opið fyrir þetta ákvæði en við festum okkur ekki í hefðinni hvað það varðar. Hins vegar hafa komið fram ábendingar, sérstaklega úr röðum skólastjórnenda, og efasemdir um þetta. Ég tel þetta eitt af þeim málum sem menntamálanefnd þarf að fara vandlega yfir.

Ég vil í þriðja lagi, frú forseti, nefna ákvæði um lengd kennslustunda. Um það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð. Mér liggur við að nota orðið fáránlegt, að það sé allt að því fáránlegt að festa niður að kennslustund skuli vera af tiltekinni lengd. Allir kennarar vita að aðstæður, efni og umhverfi er afskaplega breytilegt eftir því hvað um er fjallað, hvernig hópa er unnið með og því starfi sem fram fer hverju sinni. Segja má að það vinni gegn öllum markmiðum um sveigjanlegt skólastarf að lögbinda starf við tiltekinn tíma. Það er að sjálfsögðu eðlilegra, heilbrigðara, opnara og sveigjanlegra að hver skóli hafi möguleika á að raða kennslustundum og skipuleggja kennsluna út frá efni, aðstæðum, nemendum og kennurum, sem sveigi það eftir efninu hverju sinni. Ég tel þetta vera eitt af stærri málunum í þessu frumvarpi sem hefur þó kannski ekki verið svo mikið rætt. Það opnar fyrir mikinn og jákvæðan sveigjanleika.

Í fjórða lagi vil ég minnast á aðkomu foreldraráða. Við þekkjum hið ágæta starf samtakanna Heimilis og skóla, sem eins og nafnið bendir til leggja mikla áherslu á að foreldrar, heimili og skóli vinni náið saman. Segja má að vettvangur barnsins skiptist á milli þessara tveggja aðila, heimilis og skóla. Þróunin á síðustu árum og áratugum hefur verið sú að skólinn hefur tekið að sér stöðugt fleiri verkefni er snerta beint og óbeint uppeldi barna. Þótt ábyrgðin hljóti alltaf fyrst og síðast að hvíla á herðum foreldra er staðreyndin sú að skólinn hefur í vaxandi mæli tekið við þessu hlutverki. Við þekkjum hinn einsetna grunnskóla. Í sumum sveitarfélögum, þar sem samstarf skólans, tómstundafélaga og íþróttafélaga hefur verið hnýtt vel saman geta börnin farið heim að vinnudegi loknum, búin að sinna ansi mörgum þáttum. Það getur orðið langur vinnudagur. Skólinn er jafnvel farinn að sinna börnunum lengur í vökutíma að vetrinum en foreldrarnir. Því er að sjálfsögðu afar mikilvægt að formlegt samstarf foreldra og skóla sé fest betur í sessi en verið hefur.

Með þessu frumvarpi er tryggð sú staða sem foreldrar þurfa að hafa í skólastarfinu. Án góðs samstarfs milli heimilis og skóla mun barnið ekki þrífast. Það segir sig sjálft. Með því að skapa foreldraráðum sess og skipa þeim veglegri sess held ég að við bætum samskiptin og uppeldisumhverfi barnanna, sem er kjarni málsins. Því fylgir að sjálfsögðu aukin ábyrgð, með því að foreldrar verða dregnir inn í skólastarfið og því fylgir að sjálfsögðu mikil ábyrgð. Þegar nemendur koma heima tuðandi yfir óréttlæti heimsins í skólanum er hið versta sem getur gerst að foreldrar taki undir tuðið og skapi þar með neikvætt viðhorf til skólans, sem hefur áhrif á nemendurna á móti. Ég tel að einmitt með því að styrkja foreldraráðin, eins og lagt er til í frumvarpinu, aukum við gagnkvæma ábyrgð heimilis og skóla. Því ber að fagna.

Ég vildi leggja áherslu á þessi fjögur meginatriði. Ég tel að með frumvarpinu sé sveigjanleikinn aukinn varðandi form skólanna. Með því yrði það tryggt að formið skipti ekki máli gagnvart nemandanum en sveigjanleikinn er einnig aukinn innbyrðis í skólastarfinu, þannig að efnið ráði fremur en formið. Jafnframt eru tengsl heimilis og skóla hnýtt betur. Þess vegna verður virkilega gaman að fylgja málinu áfram innan hv. menntamálanefndar.