132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:39]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú þykir mér hv. þingmaður kominn heldur langt fram úr sjálfum sér. Hér er til umræðu frumvarp við 1. umr. Þá er efni frumvarpsins kynnt og kostum þess og göllum velt upp. Eins og fram hefur komið í umræðunni sjá menn flest jákvætt við það þótt einhver atriði þurfi að skoða. Hátturinn er sá að senda mál út til umsagnar, hlusta síðan á þær og bregðast síðan við.

Hv. þingmaður las upp úr samþykkt stjórnar Sambands sveitarfélaga. Ég efa það ekki eitt augnablik að menntamálanefnd muni taka hana til skoðunar. Hins vegar er mjög mikilvægt, við 1. umr. um málið og áframhaldandi vinnu við það, að viðra skoðanir sínar. Ég árétta þá skoðun mína, sem ekki endilega þarf að vera hin rétta, að mikilvægt sé að tryggja, að því gefnu að ekki sé ágreiningur um að einkaaðilar taki að sér rekstur skóla, sem mér heyrist að hv. þingmaður sé ekki andsnúinn, því prinsippi, að slíkir skólar fái lágmarksfjárveitingu til að koma í veg fyrir að svo illa verði búið að þeim að það bitni á nemendum.

Hins vegar er líka rétt að minna á að það er í ákvörðunarvaldi hvers og eins sveitarfélags hvort því þóknast að fara slíka leið eða ekki.