132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:58]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Því miður missti ég af upphafi ræðu hv. þingmanns en orðanotkun hennar vakti sérstaka athygli mína. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann. Hvernig lítur hún á aðra grunnskóla landsins, þá sem eru reknir af sveitarfélögum? Hv. þingmaður talaði ýmist um sjálfstæðu skólana eða frjálsu skólana, væntanlega með vísun til þess að aðrir skólar séu þá ósjálfstæðir eða ófrjálsir. Þetta er afar sérkennileg orðanotkun. Það er alkunna í stjórnmálum að menn, eigum við að segja, frú forseti, laumi inn orðum af þessu tagi til að vekja upp hugsanir sem eru þá til þess fallnar, eins og í þessu tilfelli, að sverta. Ég gerði að umtalsefni í ræðu minni hér áðan að orðalagið í frumvarpinu væri afar óheppilegt af þeirri einföldu ástæðu að með því að taka sér ákveðin orð í munn um skóla af þessari gerð eru menn að segja ýmislegt um aðra skóla. Ég skil hins vegar vel að skólar sem mynda samtök noti áróðursorð í sínum titli til að vekja meiri athygli á sér og skapa sér ákveðna sérstöðu. Það er í raun og veru allt annar handleggur.

Mér finnst hins vegar ekki sæma okkur hv. þingmönnum að nota slíkt orðalag. Ég trúi því ekki að það sé markmið hv. þingmanns að sverta það mikilvæga og góða starf sem rekið er almennt í grunnskólum okkar, sem hefur tekið gífurlegum stakkaskiptum og þróast afar vel í höndum sveitarfélaganna. Ég vona að það sé rétt hjá mér að hv. þingmaður eigi alls ekki við það sem getur falist í slíkri orðanotkun.