132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:00]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spyr mig um orðanotkun. Það er sjálfsagt að svara því. Ég geri ráð fyrir að ég hafi notað hugtökin „sjálfstæður skóli“ og „frjáls skóli“. Reyndar voru það ekki mín orð heldur var ég að vísa í orð Margrétar Pálu. Ég hef hins vegar notað jöfnum höndum hugtökin „einkarekinn skóli“ eða „sjálfstæður skóli“. Í því felst enginn dómur um opinbera skóla eða gildismat.

Hins vegar fannst mér merkilegt að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vildi meina að einkarekinn skóli eða sjálfstæður skóli, rekinn af opinberu fé, væri opinber stofnun. Mér fannst það mjög merkileg yfirlýsing, sem segir mér að vinstri grænir væru tilbúnir að ganga þá leið að setja allan rekstur almannaþjónustu í hendur einkaaðila svo framarlega sem það yrði greitt af opinberu fé. Ég get tekið undir það. Það er enginn ágreiningur á milli okkar um það, sé það réttur skilningur hjá mér.

En meginatriðið er ekki hvaða orð við notum, tölum um sjálfstæða skóla eða einkarekna skóla, ég legg það að jöfnu. Mestu skiptir að við skiljum orðin með sama hætti og séum sammála um hvaða form er á samskiptum ríkis og einkaaðila við rekstur samfélagsþjónustu, t.d. í menntakerfinu, að ríkið sem geri samning við einkaaðila um að taka að sér rekstur tiltekinnar þjónustu sem lýtur ákveðnum lögum, ákveðnum ramma og gæðakröfum. Það er aðalatriðið í þessu. En hvað við köllum það og hvaða orð við notum er ekki aðalatriði.