132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:22]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur ekki tekið eftir þeim vanda sem einkareknir grunnskólar í Reykjavíkurborg hafa þurft að búa við og bregðast við þá hefur hann ekki fylgst með umræðunni. Það hafa verið leiðaraskrif eftir leiðaraskrif þar sem kvartað hefur verið yfir því hvernig stjórnvöld í Reykjavík, R-listinn undir forustu Samfylkingarinnar, hefur komið fram gagnvart einkaaðilum í skólarekstri. Þessi mál voru rædd hér fyrir skömmu í tengslum við málefni Landakotsskóla, svo ég taki sem dæmi. Skólastjórnendur bæði Ísaksskóla, Landakotsskóla og Tjarnarskóla hafa viðrað sjónarmið sín varðandi þetta. Það er alveg morgunljóst og ég veit ekki hvar hv. þingmaður hefur verið ef hann hefur ekki tekið eftir því að einkaskólarnir og stjórnendur þeirra hafa talið að það hafi verið mjög hart fram gengið gegn þeim af stjórnvöldum í Reykjavík.

Hv. þingmaður skilur ekki af hverju þetta mál er komið fram. Ég sagði það í ræðu minni að það væri beinlínis nauðsynlegt, m.a. vegna þess hvernig Reykjavíkurlistinn hefur komið fram gagnvart einkaaðilum í skólakerfinu, og ég leyfi mér að segja það, hvernig Reykjavíkurlistinn hefur mismunað nemendum, svo ég endurtaki það, mismunað nemendum þessara skóla, þeir hafa ekki setið við sama borð og nemendur í opinberu skólunum.

Þetta snýst ekkert um það að við trúum ekki eða treystum frambjóðendum okkar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þeir eru bara ekki í meiri hluta. Það er Samfylkingin og R-listinn sem eru (Forseti hringir.) í meiri hluta en þeir hafa lagt skólamál að þessu leyti í algjöra rúst.