132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:26]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er algjörlega fráleitur málflutningur að halda því fram eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerði að ég hafi sagt að einkaskólar væru verri en hinir skólarnir. Það eru bara fáránlegar yfirlýsingar, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) ég er ekkert að halda því fram. Ég tel reyndar að einkaskólarnir séu betri en þeir skólar sem eru reknir af hinu opinbera og ég held að allar mælingar sýni það. Ég held að það hafi sýnt sig í öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið á gæðum skóla, bæði hér á Íslandi og erlendis að einkaskólar og nemendur í einkaskólum hafi í flestum tilvikum staðið sig betur en nemendur úr öðrum skólum. Allar yfirlýsingar og fullyrðingar um að ég hafi talið að einkaskólar væru verri en opinberu skólarnir eru rangar.

Ég sagði hins vegar að þeir sætu ekki við sama borð og opinberu skólarnir. Þeir hafa ekki fengið jafnhá fjárframlög frá sveitarfélögunum og opinberu skólarnir og sitja ekki við sama borð, það er alveg ljóst. Þeir hafa þurft að fjármagna sig með öðrum hætti.

Það er alveg ljóst og það skal alveg standa, að meiri hlutinn í Reykjavík, R-listinn í Reykjavík, undir stjórn Samfylkingarinnar hefur kerfisbundið lagt sig fram við að grafa undan einkaskólunum, að grafa undan einkarekstri á grunnskólasviði. Það er alveg ljóst, (Gripið fram í.) þeir hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að grafa undan sínum skólum. Og það er kominn tími til þess að sá kúrs verði réttur og það erum við að reyna að gera hér. En hv. þingmaður og flokkur hans, Samfylkingin, vilja halda áfram kerfisbundið að grafa undan þessum skólum, ganga milli bols og höfuðs á þeim. En það munu þeir ekki komast upp með vegna þess að við ætlum að breyta lögum til þess að (Forseti hringir.) treysta rekstrargrundvöll þessara aðila.