132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Íslensk leyniþjónusta.

[15:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er skírskotun í landráð í a.m.k. þremur lagabálkum, þar á meðal í lögum um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjamanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir. Þar er landráð m.a. skilgreint, vísað í skemmdarverk, njósnir og brot á hvers konar lögum er varða leyndarmál íslenska ríkisins eða Bandaríkjamanna eða leyndarmál er varða varnir Íslands eða Bandaríkjanna. Síðan segir annars staðar í þessum lagabálki að stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna skuli gefa hvor öðrum skýrslur um árangur, hvers konar rannsóknir og saksóknar í þeim málum sem eru til umfjöllunar.

Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra: Finnst ráðherranum ekki eðlilegt að efla tengsl og aðhald af hálfu Alþingis Íslendinga? Að Alþingi Íslendinga sitji ekki skör neðar en Bandaríkjaher og bandarísk yfirvöld þegar um þessi alvarlegu mál er að tefla?