132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Hækkun raforkuverðs.

[15:21]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. iðnaðarráðherra snýr að hækkun raforkuverðs. Við höfum fengið inn í Alþingi skýrslu sem unnin hefur verið um breytingar á raforkuverði og þar höfum við séð þó nokkrar prósentuhækkanir, einkum í dreifbýli, en misjafnt eftir landsvæðum. Þetta hefur stundum komið til umræðu og jafnan verið borið til baka um að ný raforkulög hefðu neitt að segja til hækkunar.

Við höfum stundum verið að nefna það, einkum þingmenn landsbyggðarinnar, að við hefðum dæmi um að raforkuverð hefði hækkað verulega og meira en komið hefur fram og hæstv. iðnaðarráðherra hefur samþykkt að hefði átt sér stað.

Nú vill svo til að sá sem hér stendur á hús norður í Ísafjarðardjúpi sem heyrir undir dreifbýlisbyggðina Súðavík. Eins og ég les úr útreikningum kílóvattstunda af því húsi, sem er gamalt lögbýli í Ísafjarðardjúpi, hefur orðið 50% hækkun þar á taxta, úr 4,60 þann 31.10.2004 í 7,17 31.10.2005. Báðar tölurnar eru án virðisaukaskatts.

Það eru auðvitað mörg fleiri dæmi sem við þingmenn höfum fengið í hendur en við höfum ekki viljað vera að vitna í reikninga annars fólks. Ég get hins vegar vitnað í reikninga sjálfs míns og spyr hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún hyggist aðhafast eitthvað til að kanna hvaða forsendur eru fyrir slíkum hækkunum á milli ára.