132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Hækkun raforkuverðs.

[15:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Já, það er kannski að jafnaði tvisvar, þrisvar í viku sem þetta mál kemur upp á hv. Alþingi og það vill svo til að hér er búið að dreifa skýrslu sem ég vonast til að geti sem allra fyrst komist til umræðu, um framkvæmd nýju raforkulaganna, þar sem við gætum þá vonandi fengið tækifæri til að fara yfir þetta mál í heild sinni þannig að ekki þurfi að tala um það í stikkorðastíl því hv. þingmenn að sjálfsögðu kveðja sér ekki hljóðs til að tala um þá sem hafa lækkað en það er svo sannarlega mikið um það að bæði heimili og fyrirtæki hafi lækkað eftir að nýju raforkulögin tóku gildi. Hægt er að nefna háar prósentutölur í því sambandi þar sem bæði fólk og fyrirtæki hafa verið að lækka og það er þá einkum á svæði Rariks.

Hvað varðar Súðavík geri ég mér grein fyrir að Súðavík kemur ekki vel út vegna þess að Súðavík telst í dreifbýli. Eins og hv. þingmaður hlýtur að vita var beitt sérstökum aðferðum til að greiða niður dreifingarkostnað í dreifbýli af því sem nemur dýrustu dreifingu í þéttbýli. Það voru 230 milljónir sem komu á fjárlögum til að koma til móts við þær greiðslur.

Í aðalatriðum vil ég segja að það hefur sýnt sig að þessi lög eru réttmæt enda var ekki undan því komist að setja þau miðað við að þetta er tilskipun frá Evrópusambandinu. Mér finnst því broslegt að hv. þingmenn séu alltaf að grípa eitt og eitt dæmi út úr og koma hér, nú kom hv. þingmaður með eigin reikninga upp í ræðustól á Alþingi til að reyna að blása upp einhver óskapleg vandamál í kringum þetta nýja kerfi. Það er ekki svo að þetta sé eitthvert stórkostlegt vandamál. Við þurfum vissulega að líta á ákveðna þætti eins og hvað snertir upphitunina og nú þegar hefur verið brugðist við því á ákveðinn hátt og verður gert frekar.