132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Hækkun raforkuverðs.

[15:28]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Til að undirbyggja framtíðina fyrir hæstv. ráðherra þegar að því kemur að þessi mál verði rædd hér í heild sinni skal ég upplýsa hana um hvernig þessir nýju reikningar eru útbúnir. Þeir eru annars vegar útbúnir fyrir dreifingu og flutning og fyrir það greiðist 4,27 kr. á kílóvattstundina þegar búið er að draga frá 0,63 aura í svokallað dreifbýlisframlag. Síðan er greitt sérstaklega fyrir söluna sem er annar hluti reikningsins því að nú er þessu skipt upp, 2,90 kr. Þetta eru tölur fyrir utan virðisaukaskatt. Ég veit reyndar einnig að það eru fleiri en ég sem hafa tekið eftir þessum breytingum og ég efast ekki um að íbúar í dreifbýlishreppnum Súðavík hafi komið athugasemdum sínum á framfæri eins og margir fleiri, því miður. Þetta eru bara staðreyndir og mér finnst að ráðherrann ætti að viðurkenna það og taka á málunum.