132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[15:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra um að banna veiðar á loðnu með flottrolli. Ég tel að það hafi verið skynsamleg ákvörðun og hefði út af fyrir sig mátt taka hana fyrr.

Í öðru lagi tel ég að sú stefna sem stjórnvöld hafa haft, að skilja eftir um 400 þús. tonn af loðnu í sjónum til að tryggja viðgang stofnsins, hafi í meginatriðum reynst rétt. Þó verðum við alltaf að vera á varðbergi. Aðstæður sem ráða vexti og viðgangi stofnsins eru síbreytilegar og geta breyst skyndilega þannig að menn þurfi að fara enn varlegar stundum. Og hugsanlega eiga þær aðstæður að einhverju leyti við núna.

Í þriðja lagi tel ég að við eigum ekki bara að hafa þá stefnu að nýta loðnustofninn til veiða heldur að nýta loðnustofninn til að veiða úr sjónum sem mest verðmæti. Það þarf ekki að þýða að veiða endilega loðnuna sjálfa heldur jafnvel, ef meiri verðmæti reynast í því, að geyma loðnuna sem æti fyrir aðrar fisktegundir og veiða þær. Ég vek athygli á hversu illa hefur gengið að byggja upp þorskstofninn. Stöðugt sækir á mig sá grunur að hinar miklu loðnuveiðar á undanförnum 20 árum eigi sinn þátt í því. Ég held að við hefðum fengið meiri verðmæti upp úr sjónum ef við hefðum veitt meira af þorski heldur en það sem við veiddum af þorski og loðnu.

Í fjórða lagi vil ég segja, virðulegi forseti, að í mínum huga er niðurstaðan af þessari umræðu sú að við þurfum að setja meira fé til rannsókna. Meira fé til rannsókna og til fleiri aðila. Því hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra verið að beita sér fyrir eins og komið hefur fram hér í þingsölum. Ég styð hæstv. ráðherra eindregið í þeirri viðleitni. Meira fé til rannsókna til fleiri aðila.