132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[15:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að ræða um loðnustofninn og loðnuveiðar. Þetta er einn mikilvægasti fiskstofn Íslands og ber orku inn á okkar hefðbundnu fiskimið og lífríkið. Menn vita vel hvernig fiskiríið hefur verið fyrir Norðurlandi í allt sumar og er enn. Loðnan gekk upp að Norðurlandi seinni part vetrar í fyrra og lítið var veitt af henni. Það virðist sem svo að fiskurinn hafi sótt verulega í þetta. Fyrir Norðurlandi hefur nánast verið stanslaus botnfiskveiði, einkum á línu, allt síðastliðið ár og er reyndar enn. Fiskurinn er nokkuð vel haldinn að því er sjómenn segja. Á sama tíma segja fiskimenn að þorskur sé illa haldinn hér vestan og sunnan lands og þarf ekki nema að kíkja í Fiskifréttir í dag og sjá hvað þar er sagt af einum skipstjóranum. Á annarri síðu í Fiskifréttum er talað um að línuveiðar sæki stöðugt á og hafi sótt á undanfarin ár. Af sjálfu leiðir ef fiskinn vantar eða hefur takmarkað æti þá gefur fiskurinn sig betur á línu.

Ég tel fulla ástæðu til að bæta inn í þessa umræðu öðru atriði. Það er nýting sjávarspendýranna á loðnustofninum. Það er vitað að hvalirnir éta geysilegt magn af loðnu. Er talið að þeir éti um það bil fimmfaldan þann kvóta sem við ætlum nú að veiða. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann sé ekki í alvöru farinn að velta því fyrir sér að taka upp hvalveiðar í atvinnuskyni og stunda þær af miklu meiri krafti en við höfum gert undanfarin ár. Norðmenn hafa, ef ég veit rétt, aukið veiðar sínar á hrefnu ár eftir ár og eru farnir að veiða hundruð dýra á hverju ári. Ekki er að sjá að það komi niður á útflutningi þeirra eða annarri framleiðslu. Ég vil beina því til ráðherrans að skoða það í (Forseti hringir.) alvöru að taka hvalveiðar upp.