132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[15:56]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðuna, hún er alltaf nauðsynleg þegar um er að ræða þennan mikilvæga nytjastofn okkar. En þannig er að veiðistjórnin á loðnunni hefur í meginatriðum tekist býsna vel. Samt sem áður er það alveg augljóst mál að við þurfum að auka rannsóknir. Það er lykilorðið í sambandi við loðnuveiðarnar til að við vitum meira og meira um þennan mikilvæga stofn. Það þarf að rannsaka loðnustofninn sjálfan og hvernig hann hagar sér. Það þarf að auka rannsóknir á vistkerfinu í heild og samhengi þorsks og loðnu en líka loðnustofninn í samhengi við aðrar tegundir eins og kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari, t.d. í samhengi við hvalastofnana. Það hefur einnig komið fram hjá ráðherra að það þarf að rannsaka betur áhrif flottrollsveiða.

Hæstv. forseti. Sú regla að skilja eftir 400 þús. tonn til hrygningar virðist hafa verið árangursrík og hefur alls ekki leitt til neikvæðrar þróunar í nýliðun á loðnustofninum. Augljóst er, eins og við sjáum nú, að það er ekkert hrun í stofninum. Göngumynstur er hins vegar breytt og það eru allt of margir þættir sem við þekkjum ekki og þurfum því að skoða betur. Ég vil vitna til Jóhanns Sigurjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, á aðalfundi LÍÚ. Hjá honum kom fram að síðustu sjö vertíðir hefur ekki tekist að mæla veiðistofn fyrir áramót og niðurstaðan af aflamarki er því oft síðbúin. Síðustu þrjú til fjögur árin hefur ungloðna haldið sig annars staðar að haustlagi þannig að erfiðlega hefur gengið að ná mælingu og þar með að ná fram einhverjum spám.

Hæstv. forseti. Hér er um mikið efnahagslegt spursmál að ræða. Því verðum við að leggja heilmikið á okkur til að ná sem bestri (Forseti hringir.) vitneskju um þennan mikilvæga stofn.