132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[15:58]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á að fagna því að þessi umræða skuli eiga sér stað. Fyrir okkur sem búum í byggðarlögum þar sem loðna er unnin eru það alltaf gleðitíðindi þegar loðnukvóta er úthlutað á sama hátt og það eru jafnan vonbrigði þegar úthlutun er lítil. Það eru mikil vonbrigði hversu lítið hefur fundist af loðnunni og ekki síður að það skuli engin vissa vera fyrir því að ekki sé meira af loðnu í sjónum. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér hvað það varðar að hún sé miklum mun meiri.

Loðnuleitin hefur því miður ekki verið með þeim hætti að allir geti hrópað húrra fyrir henni. Það má því miður líka segja um rannsóknir Hafrannsóknastofnunar, þær hafa ekki verið með þeim hætti að allir geti verið ánægðir. Það hefur blasað við til fjölda ára að fjármagn hefur skort til stofnunarinnar til að auka rannsóknir sínar, m.a. rannsóknir á flottrollinu sem því miður hafa ekki verið nægar. Þess vegna eru ákvarðanir hæstv. ráðherra byggðar á allt of veikum grunni. Hæstv. ráðherra þarf auðvitað að taka þessar ákvarðanir en hann er ekki öfundsverður af að þurfa að gera það á jafnveikum grunni og raun ber vitni. Hæstv. ráðherra virðist fara í einu og öllu eftir Hafrannsóknastofnun jafnvel þó að stofnunin sé ekki með skýrar tillögur og færi líkur að hinu og þessu. Þá nefni ég t.d. ákvörðun hæstv. ráðherra um flottrollsbannið sem augljóslega getur haft þær afleiðingar að við fáum minni verðmæti fyrir loðnuna en við gætum ella. Með því banni er verið að gera hlut vinnsluskipanna, sem nú eru úti og eru að frysta á miðunum, minni. Það er því að ýmsu að hyggja og áhyggjuefni hvernig að málum er staðið.

Eitt að lokum, frú forseti. Það er varðandi fyrstu úthlutun sem átti sér stað. Þá vakti sérstaka athygli að þar fengu útlendingar meiri hlut en Íslendingar. Það er rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sýni ekki að ástæða sé til að kanna hvort ekki þurfi að breyta þessum samningi að einhverju leyti.