132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[16:01]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þetta er í þriðja sinn á tiltölulega skömmum tíma sem við tökum loðnu til umræðu á hv. Alþingi. Mér sýnist stefna í það sama og í fyrri skiptin að við séum í rauninni litlu nær og skal engan furða því þekking okkar á hegðun loðnunnar í hinu mikla hafi umhverfis Ísland er afskaplega takmörkuð. Óvissuþættir eru gífurlega margir, nægir að nefna samspil hitastigs, seltu og breytileika á þeim þáttum og öðrum í lífríki sjávar sem auðvitað hefur áhrif á göngumynstur loðnunnar. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að halda í vonina og taka ef til vill mark bæði á fiskifræðingum og ekki síður reyndum loðnuskipstjórum sem bíða pollrólegir sannfærðir um að loðnan muni koma nú eins oft áður.

Ég tek undir það að ég tel að ráðherra hafi stigið rétt skref, varfærin skref í þessu. Í fyrsta lagi með því að úthluta takmörkuðum kvóta á grundvelli þeirrar þekkingar sem búið var að afla og þeirrar loðnu sem búið var að finna og ber að fagna því að stór hluti af þeirri loðnu virðist fara til manneldis. Ég vil einnig fagna sérstaklega þeirri ákvörðun hæstv. ráðherra að takmarka flottroll svo að segja má að búið sé allt að því banna það í loðnuveiðum og með þeim rökum sem hér hafa verið nefnd áður að þau leiki aflann illa og kunni að breyta hegðunarmynstri.

Stóra spurningin er, hversu langt eigum við að ganga í loðnu þegar hún er fundin? Að sjálfsögðu þurfum við að hafa í huga að vernda stofninn en hins vegar ekki síður að skoða tengsl hans við aðra þætti, að horfa á meiri hagsmuni fyrir minni og athuga hvernig við getum náð sem mestum verðmætum upp úr sjónum og hversu langt við eigum að ganga í að vernda loðnuna vegna annarra tegunda.

Þá tek ég undir þau sjónarmið sem hér hafa verið nefnd um samkeppnina okkar við hvali og hvet hæstv. ráðherra til að ýta enn frekar undir þessa fjölstofna veiðistefnu.