132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[16:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka þessa umræðu sem mér finnst hafa verið í meginatriðum málefnaleg. Hún hefur líka haft það gildi að hafa varpað ljósi á þau álitamál sem uppi eru þegar við fjöllum um þessi mál sem eru auðvitað á margan hátt býsna flókin eðli málsins samkvæmt. Það sést m.a. á því að ég hef bæði verið spurður um hvort ekki væri eðlilegt að banna allar flottrollsveiðar en einnig fengið gagnrýni um að ég hafi gengið fullbratt til leiks í þeim efnum, að takmarka flottrollsveiðarnar eins og ég gerði með reglugerð sem gefin var út fyrr helgina og tók gildi núna í hádeginu.

Að mínu mati er ekki ástæða til að banna allar flottrollsveiðar. Þær geta vel átt rétt á sér við tilteknar aðstæður. Hins vegar er ástæða til að taka mjög mikið mark á því sem margir sjómenn, útvegsmenn og reyndar vísindamenn hafa talað um að sú hætta verði fyrir hendi að ótakmarkaðar flottrollsveiðar hafi neikvæð áhrif annars vegar fyrir stofninn sjálfan og í hinn stað fyrir göngumynstur loðnunnar.

Það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan var mjög athyglisvert. Hann vakti athygli á því að sæmilegur fæðubúskapur hefur verið fyrir Norðurlandi á þessum vetri en hins vegar væri öðruvísi fyrir að fara fyrir sunnan land og vestan eins og hv. þingmaður nefndi. Það sem menn hafa verið að benda á varðandi flottrollið er að það kunni m.a. að hafa haft þau áhrif að trufla göngumynstur loðnunnar, hún hafi ekki haft næði til að ganga vestur með Suðurlandi þó að við getum ekki fullyrt það eða sannað upp á punkt og prik þannig að óyggjandi sé. En það var engu að síður niðurstaðan að takmarka þessar veiðar.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði um úthlutun til útlendinga. Það var einfaldlega samkvæmt samningum og ef við tækjum þá samninga upp þyrftum við líka að taka upp ákvæði sem lýtur að veiðum Norðmanna sem gerir það m.a. að verkum núna að það er mjög takmarkandi fyrir veiðar Norðmanna og gerir þeim mjög illmögulegt og kannski ómögulegt að stunda veiðarnar á loðnunni. (Forseti hringir.) Þeir mundu sækja á um að fá ívilnun sér til handa sem ég efast um að nokkur hér í þinginu mundi vilja ljá máls á.