132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það svar sem hér hefur komi fram og tel að það eigi að skoða þetta. Ég sagði það reyndar fyrir upphaf þessa fiskveiðiárs að við hefðum átt að skoða það þá. En ég fagna því auðvitað að hæstv. sjávarútvegsráðherra segir að það komi til greina að skoða það á nýju fiskveiðiári sem hefst 1. september í haust.

Ég verð að segja það enn einu sinni að ég hef verið skotinn í þessari 9. gr., þessum viðlagasjóði sem svo hefur verið, til að koma til móts við hrun í einstökum veiðistofnum eins og hér hefur átt sér stað hvað varðar úthafsrækjuveiðarnar. Hvað ætlum við t.d. að gera, virðulegi forseti, ef allt í einu kæmi til að engin loðnuveiði yrði? Við vorum að ræða það og það getur gerst, það hefur gerst. Þá þarf að vera innbyggt í þetta kerfi fyrir alla þannig varasjóður sem 9. gr. er. En það er svo aftur annar handleggur, virðulegi forseti, að þegar búið er að úthluta þeim uppbótum sem ég hef hér gert að umtalsefni þá er restinni úthlutað hlutfallslega til allra sem hafa kvóta og þar með er varasjóðurinn farinn. Það er auðvitað ekki gott vegna þess að þá gætum við þurft að lifa heilt ár án þess að geta gripið í þennan varasjóð.