132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:35]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagðist vera sannfærður um að þetta bráðabirgðaákvæði stæðist stjórnarskrána. Mér finnst hér öllu snúið á haus. Ef menn þurfa ekki að nýta veiðiréttinn þegar honum hefur verið úthlutað til þeirra og ef ekki þarf á því að halda að takmarka veiðar vegna þess að verið sé að vernda fiskstofn á þá að setja sérstakt ákvæði bara til að sjá til þess að vernda veiðirétt þeirra manna sem hafa fengið úthlutað veiðirétti en nýta hann ekki af einhverjum ástæðum? Mér finnst menn vera hér með allt á hvolfi. Búið er að snúa öllum röksemdum við sem hafðar voru á sínum tíma þegar því var haldið fram að þetta væru atvinnuréttindi sem ætti að verja, af því að alltaf var gert ráð fyrir að menn nýttu þau. Það hlýtur að þurfa að hafa þetta þannig að ef einhverjir aðrir treysta sér til að nýta réttindin verði það opið, það verði ekki bara gengið eftir því sem beðið er um hér eða pantað frá eigendum veiðiréttar í landi.