132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:38]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í þessu frumvarpi má segja að fram komi þrjú atriði, eins og hæstv. ráðherra rakti hér, auk þeirra bráðabirgðaákvæða sem komu aðeins til umræðu í andsvarinu. Ég vil aðeins segja um bráðabirgðaákvæðið að hvað varðar rækjuflotann þá tek ég undir með hæstv. ráðherra. Mér finnst það sanngirnissjónarmið hvernig sem á það er litið og þar sem ástandið á rækjustofninum er eins og raun ber vitni er eðlilegt að taka tillit til þess eins og hér er gert, þ.e. að ef menn geta ekki sótt sjóinn þótt þeir fegnir vildu á ekki að refsa þeim fyrir það og á hinn bóginn á heldur ekki að rukka þá samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði, taka af þeim gjald, nema þeir fái afla. Það er bara sanngirnissjónarmið og undir það tek ég.

Í frumvarpinu eru þrjú meginatriði, fyrir utan bráðabirgðaákvæðið. Í fyrsta lagi það sem kalla má lagalega tiltekt þar sem sóknardagakerfi krókabáta fellur niður í lok þessa árs á grundvelli breytinga sem hér voru gerðar um árið. Dagabátarnir eru með öðrum orðum að hverfa og þá er eðlilegt að taka tillit til þess í lagaumhverfinu.

Það er líka gaman að rifja það upp, miðað við allar þær hrakspár sem uppi voru hafðar hjá ýmsum hv. þingmönnum, þegar verið var að stíga það skref að leggja niður dagakerfið og líta yfir slóðina núna og sjá hvaða reynsla er komin af því. Verður ekki annað séð en almenn gleði ríki meðal langsamlega flestra þeirra sem áður voru á dagakerfi og upplifa núna muninn. Þetta er rólegra líf, það er fjölskylduvænna líf og þeir geta stundað útgerð sína með markvissari og rólegri hætti en áður tíðkaðist. Með öðrum orðum: Flest markmiðin sem menn settu sér með þessari breytingu hafa náðst og það er vel. Því má segja að þetta ákvæði 1. gr. frumvarpsins að leggja niður dagakerfið sé í rauninni hinstu skrefin í því og menn hljóta að fagna því og telja það eðlilegt.

Í annan stað vil ég nefna 3. gr. frumvarpsins sem lýtur að því sem kom aðeins til umræðu í andsvörum áðan, um að flutningur aflaheimilda geti gerst með rafrænum hætti. Það væri í rauninni í alla staði óeðlilegt að leggjast gegn því. Það væri í rauninni að leggjast gegn framförum að nýta sér ekki tæknina, eins og hæstv. ráðherra nefndi, menn stunda þetta í bankaviðskiptum, þar sem þessi rafræna tækni opnar fyrir sveigjanleika. Rétt er að draga fram líka að það dregur úr skattheimtu á útgerðina því að Fiskistofa hefur þurft að rukka fyrir þennan flutning og með því að notfæra sér tæknina er annars vegar verið að spara útgerðum en um leið verið að skapa þennan sveigjanleika. Það segir sig sjálft að það að ganga frá slíkum aflaheimildum með rafrænum hætti er miklu fljótlegra og þar af leiðandi sveigjanlegra heldur en með eldri aðferðum. Menn ættu að fagna því að leiða nútímatækni inn í stjórnkerfi fiskveiðanna.

Þá kem ég að 2. gr. sem, eins og hér hefur komið fram og birtist í greinargerð með frumvarpinu, lýtur að því að setja þak á smábátana líkt og gert hefur verið í stóra kerfinu. Munurinn er þó sá að það nær ekki yfir allar tegundir, eins og fram hefur komið fram m.a. í andsvörum, og þar að auki eru prósentur á hámarkinu. Þær eru lægri í smábátakerfinu en í stóra kerfinu, t.d. 12% í þorski í stóra kerfinu en 6% í því kerfi sem innleiða á með þessu frumvarpi. Ég tek undir það meginsjónarmið sem gert var í stóra kerfinu að setja ákveðið þak til að sjá til þess að útgerðin fari ekki á allt of fáar hendur og reyna þar með að dreifa atvinnustarfseminni, og sömu rök eiga að sjálfsögðu að gilda um hina smærri báta. Það vekur hins vegar upp ákveðnar spurningar, hvort talan 6% á móti 12% í stóra kerfinu standist og jafnframt hvort sú prósenta, 6%, sé óeðlilega lág. Það eru fullgild rök sem hæstv. ráðherra nefndi að í rauninni sé enginn kominn upp undir þetta þak enn þá en þó vísaði hæstv. ráðherra til eins fyrirtækis sem kynni að vera að nálgast það.

Það er svo, frú forseti, að fyrirtæki laga sig ávallt að því kerfi sem fyrir er hverju sinni og við hverja breytingu sem á sér stað, hvort heldur er á stjórn fiskveiða eða öðru rekstrarumhverfi sem fyrirtækjum er búið, fer af stað ákveðin þróun. Nú hefur það einmitt gerst á Suðurnesjum að slík þróun hefur átt sér stað. Menn hafa lagað sig að því kerfi sem Alþingi setti þeim og þar hefur skapast ágætt samstarf með líklega stærsta aðilanum á þessu sviði og fjölmörgum einyrkjum sem búa á svæðinu og þeir telja hag sínum vel borgið með slíku samstarfi. Því má velta upp þeirri spurningu hvort e.t.v. sér verið að hafa of mikil afskipti af þeirri þróun með því að velja prósentutöluna eða hámarkið í þorski 6%. Þá kann t.d. að koma upp sú staða ef einyrki á Suðurnesjum vill ganga til samstarfs við slíkt fyrirtæki og fyrirtækið er farið að nálgast toppinn að þá kunni menn að vera að hrekja viðkomandi aflaheimildir út af því svæði. Ég hygg að í þeim mikla slag sem er um aflaheimildir á milli svæða séu menn ekki tilbúnir til þess.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra svaraði þeirri spurningu í andsvari að á bak við töluna 6% væru engin nákvæm vísindi. Ég túlka það svo, og tel eðlilegt að sjávarútvegsnefnd fari rækilega yfir það, að við ættum ekki endilega að líta á þessa tölu, 6%, sem heilaga tölu og hljótum að taka það til skoðunar hvort ekki sé þörf á að lyfta þeirri tölu um kannski 1 eða 2% til að raska ekki einstökum svæðum og þeirri þróun sem á sér stað.

Frú forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki fleiri orð um þetta. Ég tel að frumvarpið sé mjög til bóta og að enn einu sinni séum við að lagfæra lög um stjórn fiskveiða. En það er alveg sama hversu litlar lagfæringarnar eru, þær kalla alltaf á langar og miklar umræður enda er sjávarútvegur enn þá ein af mikilvægari atvinnugreinum okkar.