132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig með handfæraveiðarnar og sóknardagakerfið að bátarnir elta fiskinn og fara eftir fiskgegnd. Þegar hún breytist þá breytist veiðislóðin. Hluti af skýringunni á því hvers vegna minna veiddist fyrir vestan er sú að veiðislóðin breyttist, t.d. veiddist meira fyrir Norðurlandi. Það hefði ekki breytt neinu þó sóknardagakerfi hefði verið áfram, það hefði bara endurspeglast af því — bátarnir veiða þar sem fiskurinn er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að þeir lögðu til, ef ég þekki þeirra tillögur um stjórn fiskveiða rétt, að einhvers konar sóknardagakerfi yrði hjá litlu bátunum en aflamarkskerfi hjá stóru bátunum — þeir voru eiginlega með tillögur um bæði kerfin. Geta þeir ímyndað sér hver staðan væri nú ef stuðst hefði verið við tillögur þeirra um aflamarkskerfi annars vegar og sóknardagakerfi hins vegar? Er það breytilegt eftir veiðarfærum eða stærð báta eða hvernig ætlar Frjálslyndi flokkurinn t.d. að bregðast við breytingum á lífríki sjávarins, eins og urðu og skýra breyttar fiskigöngur fyrir landinu?