132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:39]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú varð ég svolítið hissa. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, jafnreyndur þingmaður og hann er, fór allt í einu í andsvar í andsvari. Það eru vinnubrögð sem þykja ekki góð á hinu háa Alþingi, að alþingismenn leggist í andsvör þegar þeir eiga að vera í svörum við andsvör sem hafa komið fram við þeirra eigin ræður.

Hann fer að spyrja mig út í útfærslur á fiskveiðistjórnartillögum Frjálslynda flokksins. Ég ætla ekkert að eyða mínum dýrmæta tíma í það að fara að útlista það hér. Ég get komið inn á það í ræðu minni á eftir. Hins vegar er það svo að hv. þingmaður forðast eins og heitan eldinn að svara þeirri grundvallarspurningu sem bæði ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson höfum lagt fyrir hann. Það er hvort hann sjái eftir því að hafa tekið þátt í því voðaverki sem unnið var á vordögum árið 2004 í þessum þingsal. Voðaverki sem þrír hv. þingmenn sem sitja hér núna komu að, tveir þeirra þvert á fyrri orð og loforð, þ.e. núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og síðan hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formaður sjávarútvegsnefndar. Þessir þrír menn eru allir sekir um það sem hér gerðist sem var mikið feilspor í fiskveiðistjórninni og var hreint tilræði gegn sjávarbyggðunum.

Það sem var kannski alvarlegra við þennan gjörning var það að þessir menn fóru þvert á fyrri orð eða a.m.k. tveir þeirra, þ.e. hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra og síðan hv. 7. þm. Norðvest. Báðir þingmenn Vestfjarða sem höfðu lýst því yfir margoft í ræðum og riti að þeir mundu verja sóknardagakerfið, mundu taka þátt í að útfæra það en verja það með kjafti og klóm. Þessar greinar eru allar til. Ég las þær upp árið 2004 og ég skal gjarnan lesa þær aftur. Það er mín skoðun að þingmenn eigi að standa við orð sín en það gerðu þessir herramenn ekki og fyrir það skulu þeir hafa ævarandi skömm.