132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:43]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er að færast smáfjör í þessa umræðu og er það vel, gott ef menn fara svolítið „grundigt“ í málin. Ég heyrði að hv. síðasti ræðumaður, Kristinn H. Gunnarsson, auglýsti sérstaklega eftir stefnu Frjálslynda flokksins. Fyrir frændsemissakir ætla ég væntanlega í endaða næstu viku að senda honum nýja útgáfu af stefnuskrá Frjálslynda flokksins sem kemur þá úr prentun. Ég ætla ekki að teygja tímann mikið hér. Ég vona að hann lesi sér til gagns. Það gerði hann ekki, hv. þingmaður, við skýrslu Byggðastofnunar sem hann bað sjálfur um útgáfu á. Sú skýrsla sagði fyrir um hvað störfum mundi fækka á Vestfjörðum ef kvótasett yrði í smábátaveiðunum, störfum í sjómennsku um 200 og störfum í fiskvinnslu um 100.

Þegar haldið var áfram með kvótasetninguna á krókabátana vöruðu menn við því að það gæti haft veruleg áhrif á þá tekjumöguleika og þá afkomumöguleika sem byggðirnar hefðu. Þetta kæmi frekar en orðið væri í veg fyrir að endurnýjun yrði í kerfinu. Þó að verðmæti sóknardaganna hafi eitthvað hækkað á því tímabili sem sóknarkerfið var við lýði var það í og með vegna þess að sumir voru farnir að reikna með því að þessum sóknardögum yrði breytt í aflaheimild, yrði breytt í kvóta og menn mundu hagnast alveg sérstaklega á því.

Við erum í raun og veru, hæstv. forseti, að ræða um þessar afleiðingar í frumvarpinu þegar við tölum um hvort takmarka þurfi að menn geti keypt upp aflaheimildir eins og hér er verið að leggja til, annars vegar 6% í þorski og síðan 9% í ýsu og 6% í heildarverðmætunum, í krókaaflamarkinu. Þá erum við í raun og veru að velta því sama upp að menn geti ekki haldið áfram sem hafa til þess möguleika og fjármuni að safna til sín aflaheimildum, sem e.t.v. verða síðar verðmætari út á það að þær þjappast saman á fáar hendur og menn geta því ráðið verðmynduninni, ráðið atvinnuháttum í byggðarlögunum og stjórnað því hvar er gert út hér á landi og hvernig aflinn dreifist um landið. Þetta er það frumvarp sem við erum að ræða hér, þetta er meginefni þess þegar við erum að tala um hvort það þurfi e.t.v. í núverandi kvótakerfi, vegna þess hvernig það er uppbyggt með frjálsu framsali aflaheimilda, að setja takmörkun á það hversu stórir menn geta orðið í þessu kerfi, hversu hratt þeir geta safnað til sín aflaheimildum, því að aflaheimildir geta ekki safnast saman á einn stað nema þær fari frá öðrum stað. Þannig virkar þetta kerfi og þess vegna sitjum við uppi með vandamál í ýmsum byggðarlögum sem tengjast því að aflaheimildirnar fara frá ýmsum stöðum og safnast á færri hendur.

Það er nákvæmlega sama tilhneiging í kvótaaflamarkskerfinu núna eins og hefur verið í aflamarkskerfinu. Þetta höfum við, alla vega geri ég ráð fyrir því að við sem höfum verið að fylgjast með sjávarútvegi höfum vitað að þetta mundi gerast með því að setja allar fisktegundir inn í kvóta og að kvótasetja trillurnar í öllum þeim fisktegundum og taka síðan sóknardagana og breyta þeim í fiskveiðikvóta og þar af leiðandi fara með alla smábátaútgerðina yfir í kvótasett fiskveiðistjórnarkerfi. Þá yrði samþjöppun og það erum við að fást við í þessu frumvarpi. Við erum að tala um að það þurfi að setja, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, 6% þak í þorskinn og 9% þak í ýsunni og 6% að meðaltali.

Hæstv. forseti. Ég hallast nú heldur að því að þar sem menn eru að ræða svona takmörkun þá eigi hún að vera neðar en hér er lagt upp með. Hins vegar hefur slík tillaga þann annmarka í för með sér að það verður að gefa mönnum aðlögunartíma. Ég tel hins vegar að það sé meiri hugsun í því að hafa prósenturnar neðar en hér er lagt til ef menn meina að þeir vilji hafa atvinnuréttinn dreifðan bæði milli einstakra útgerðarstaða og einstakra landsvæða. Þess vegna held ég og bendi á að ég tel að þessar heimildir ættu að vera minni í prósentum talið til þess að ná þeim markmiðum sem menn eru hér að fást við. Við erum nokkuð seint á ferðinni að grípa inn í þessa þróun vegna þess að það máttu jú flestallir vita að hún færi í þennan veg og það er hætt við því að hún muni halda áfram að fara í þennan veg í fleiri fisktegundum en hér er talað um.

Það er samt svo að það eru kannski ekki nákvæmlega eins útgerðarmöguleikarnir á öllum fisktegundum allt í kringum landið. Ég hygg að t.d. útgerðarmöguleikar á steinbít séu mun meiri fyrir vestan en víða annars staðar á landinu þó að það kunni auðvitað að breytast eins og svo margt í okkar lífríki hér á Íslandsmiðum. En nóg um það.

Ég held að það sé algjört öfugmæli sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði fyrr í dag að það efni sem hér er í 1. gr., þ.e. að fella sóknardagakerfið algjörlega niður, að allir hafi orðið afar kátir og menn væru afar kátir í dag með að hafa stigið það skref. Ég er alveg viss um það, hæstv. forseti, að fólk í sjávarbyggðunum vítt og breitt við landið er ekkert mjög kátt með það sem er að gerast eftir að sóknardagakerfið var lagt niður. Við höfum auðvitað séð að það var hengd upp ákveðin gulrót fyrir ýmsa með niðurfellingu sóknardagakerfisins og það voru auðvitað margir sem ákváðu að selja, því miður. Þær aflaheimildir eru farnar og orðnar þjappaðar saman í önnur útgerðarform, ekki endilega í neinum handfæraveiðum eins og þær voru stundaðar heldur eru þær komnar yfir á línubáta eða litla beitningarvélabáta eins og er talsvert farið að tíðkast í smábátakerfinu og fer vaxandi.

Miðað við þá þróun sem þar á sér stað tel ég, hæstv. forseti, að það frumvarp sem hér er til umræðu sé tímabært í sjálfu sér, hefði kannski átt að vera fyrr á ferðinni, eins og ég gat um í upphafi máls míns. En ég held að það sé mikill misskilningur hjá þingflokksformanni Framsóknarflokksins að allir séu kátir í sjávarbyggðunum með þá þróun sem hefur orðið á undanförnum árum, það held ég að sé mikið öfugmæli. Menn hafa orðað það svo að hér væri verið að kasta rekunum og jarðsetja sóknardagakerfið en það er nú svo að þeir sem voru inni í sóknardagakerfinu eru væntanlega enn þá margir á lífi og hafa fengið þó nokkra fjármuni út úr því kerfi og eru sennilega sumir enn þá við þokkalega afkomu þó að ég viti náttúrlega ekki hvernig mönnum helst á fé, það er einstaklingsbundið.

Hitt er algjörlega ljóst að fólkið sem tók á móti aflanum í ýmsum sjávarbyggðum er ekkert mjög kátt með þessa þróun. Það má m.a. nefna byggð eins og Norðurfjörð á Ströndum sem við fyrrverandi Vestfjarðaþingmenn höfðum miklar taugar til og reyndum að viðhalda byggð þar og tryggja að byggðarlagið gæti haldið velli með því að byggja undir betri atvinnumöguleika og nokkuð öryggi fyrir fólkið. Ég hygg að niðurlagning sóknarkerfisins hafi því miður virkað algjörlega öfugt á það byggðarlag.

Auðvitað er það svo að hvort sem það er sóknarkerfi eða aflamarkskerfi munu bátar í þessum kerfum róa þar sem fiskinn er að hafa. Það höfum við auðvitað séð, eins og ég gat um í ræðu fyrr í dag, við hina miklu fiskgengd sem kom upp á Norðurlandi eftir að loðnan fékk að ganga þar upp í friði að mestu leyti á vordögum, að mikil sjósókn hefur verið frá Norðurlandi og menn hafa verið með báta í öllum kerfum, bæði sóknardagakerfum, þá báta sem þar hafa verið, og eins og í krókaaflamarkskerfinu að gera út bæði á línu að mestu leyti en að litlu leyti á handfæri. Það hefur verið róið frá höfnum á Siglufirði, Skagaströnd, svo dæmi séu tekin, það er þar sem hefur verið gert út af krafti við að veiða fisk fyrir Norðurlandi sem þar hefur verið í meira mæli á síðasta ári en oft áður. Það mun auðvitað alltaf verða að menn fylgja eftir fiskgöngum í kringum landið en fiskgöngurnar eru líka misjafnar. Sóknardagur sem slíkur í einhverju sölukerfi er engin ávísun á fisk. Hann er ávísun á sókn en það þarf hörkuduglega menn til að stunda þá sókn og menn þurfa þá að vera tilbúnir til að fara og vera þar og gera út þar sem fiskurinn er. Og ekkert er nú öruggt í fiskveiðum að þessu leyti til og ekki á vísan að róa og það hefur vissulega komið fyrir og kom verulega oft fyrir í sóknardagakerfinu að mönnum tókst ekki að nýta sína daga þrátt fyrir yfirlegu, vegna þess að menn voru alltaf að bíða eftir bestu veiðidögunum og besta veðrinu kannski.

En það eru fleiri atriði sem ég vil koma að í ræðu minni, hæstv. forseti. Ég er búinn að fara yfir 1. og 2. gr. en ég velti fyrir mér 3. gr. sem er um heimild Fiskistofu til þess að að taka upp svokallaðar rafrænar skráningar og semja við fyrirtæki um tilfærslur. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra að því hvort menn hafi hugleitt við þessa breytingu hvort eitthvað yrði tregara um upplýsingagjöf frá Fiskistofu, þ.e. verður eftir sem áður auðvelt fyrir hvern sem er sem hefur áhuga á sjávarútvegi og vill fylgjast þar með að fara inn á vef Fiskistofu og skoða tilfærslur einstakra báta. Eða fylgir þessum samningi hugsanlega einhver takmörkun á því að menn geti séð frá degi til dags hvað verið er að gera, verður einhver aðgangshindrun að einstökum samningum fyrirtækja sem fá að gera þetta rafrænt eða hvaða reglur hyggst ráðherrann setja í því sambandi? Ég held að það sé mikilvægt að þetta kerfi sé sem opnast og að þeir sem þar starfa og hafa áhuga á geti fylgst með, séð upplýsingar og tilfærslur sem eiga sér stað í kerfinu. Þess vegna spyr ég að því hvort þetta geti hugsanlega leitt til þess.

Síðan kem ég að blessuðu bráðabirgðaákvæðinu. Það eru svo mörg bráðabirgðaákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða, tæplega 30 og eru fleiri en lagagreinarnar held ég. Hér er verið að setja enn eitt bráðabirgðaákvæðið. Það snýr hins vegar að máli sem ég benti á í ræðu þegar verið var að setja gjald á aflaheimildirnar, að það væri afar vafasamt að útfæra gjaldið þannig að menn ættu að greiða auðlindagjald sem byggt væri á afkomu ársins á undan fyrir fram af úthlutuðum aflaheimildum, þ.e. reiknað út miðað við afkomu ársins á undan en síðan ætti að greiða það eftir á miðað við þær aflaheimildir sem þeir fengju úthlutað. Því eins og ég benti á þegar verið var að setja þessi lög, þá gæti komið upp sú staða í fyrsta lagi að aflabrögðin væru þannig að aflaheimildirnar næðust ekki. Í öðru lagi að markaðssvæðið væri allt öðruvísi árið á eftir, að þó að kvótakerfið væri til staðar þá næðust ekki aflaheimildirnar. Í þriðja lagi gæti það verið þannig að verð fyrir ákveðnar aflaheimildir og ákveðinn afla upp úr sjó væri það slakt að menn sæju sér ekki hag í því að gera út á hann.

Við stöndum frammi fyrir því í rækjunni annars vegar að þó að það sé úthlutað aflaheimildum telja menn ekki eftirsóknarvert að gera út á aflaheimildirnar, m.a. vegna mikils olíukostnaðar við það að veiða rækju, með tilliti til þess verðs sem fæst fyrir rækjuna og hins vegar að það fæst lágt verð fyrir rækju í dag vegna þess að afurðaverð er lágt og þar til viðbótar hafa gengissmálin sett rækjuiðnaðinn í mikinn vanda, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra veit mætavel. Þess vegna held ég að það ákvæði sem hér er lagt upp með, að menn skuli greiða gjaldið miðað við landaðan afla, sé algjörlega rökrétt í sjálfu sér og hefði í raun og veru verið eðlilegra þegar gjaldið var sett á að menn miðuðu við landaðan afla á hverjum tíma. Menn hefðu þess vegna getað verið með gjaldið á þriggja mánaða fresti miðað við landaðan afla, eins og mig minnir reyndar að hafi verið gert í sóknardagakerfinu því að þar úthlutuðu menn ekki aflaheimildum heldur dögum og þar af leiðandi var greitt til ríkisins vegna aflaheimildanna í hlutfalli við landaðan afla. Það er auðvitað miklu eðlilegra, hæstv. forseti, að slíkt sé gert heldur en að vera að taka mið af afkomu ársins á undan í ákveðnum veiðigreinum og greiða það svo árið á eftir þegar umhverfið er kannski allt öðruvísi og menn eru komnir í mikla erfiðleika.

Þess vegna held ég að þó nú sé verið að bæta við einu bráðabirgðaákvæðinu í viðbót þá verði að samþykkja að það eru full rök fyrir því að svo sé gert. Og það hefði í raun og veru verið eðlilegra að þannig útfærsla hefði verið almennt í veiðikerfinu að auðlindagjaldið, sem svo hefur verið kallað, væri greitt í samtímanum og miðað við þær forsendur sem menn eru að gera út á, þ.e. af lönduðum afla. Þá hefðu menn setið að því borði að geta tekið mið af bæði því hvort afli kæmi á land og eins hins vegar af verðmynduninni á hverjum tíma.

Hæstv. forseti. Það er auðvitað svo að þegar við erum að ræða stjórn fiskveiða blandast iðulega inn í það nýtingarstefna af fiskimiðunum og atvinnuhættir í byggðum landsins, í sjávarbyggðunum. Það eru mjög margar byggðir enn þá á Íslandi sem eiga undirstöðu sína að langmestu leyti undir afkomu veiða og fiskvinnslu á stöðunum. Sums staðar hefur tekist sæmilega til en á mörgum stöðum hefur það því miður ekki gerst og ég tel að í því kvótakerfi sem við notum í dag sé engan veginn hægt að bregðast við því að rétta þessar byggðir við. Það er hægt að tína til mörg dæmi um að sjávarbyggðir sem nú fara halloka og íbúarnir þar eru kannski búnir að nýta alla sína möguleika til þess að starta atvinnurekstri á nýjan leik. Þeir hafa ef til vill siglt í erfiðleikunum við að reyna að nálgast aflaheimildir eða leigja þær til sín og gera út á það, að þá hafa þeir siglt í strand og það er ekkert kapítal eftir til þess að fara af stað, enda ákaflega dýrt að fara inn í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og koma sér þar fyrir og menn þurfa mikla fjármuni til þess.

Áður gat orðið nýliðun í kerfinu sem ekki á sér stað í dag. Það var vegna þess að þá gátu duglegir menn komið sér fyrir í fiskveiðistjórnarkerfinu út á dugnað sinn og það frelsi sem því fylgdi, sem fólst m.a. í því að menn þurftu ekki að hafa kvóta fyrir öllum fisktegundum eins og var í smábátakerfinu. En því miður sjáum við nú, hæstv. forseti, að hér eru byggðarlög þar sem menn gera ekki lengur út af neinum krafti vegna þess að þeir geta ekki lengur komist inn í kerfið, þeir eru búnir að eyða upp fjármunum sínum og lenda í skakkaföllum við að gera út á mjög dýrt leigukerfi og ráða ekki við stöðuna eins og hún er. Þess vegna er það svo að sá litli vísir að byggðakvótum sem nú er til staðar nægir ekki til, sóknarkerfið er aflagt og menn komast ekki þar inn með auðveldum hætti. Þess vegna er brautin lokuð, hv. þm. Hjálmar Árnason, og lítil ánægja í byggðunum þrátt fyrir þín orð hér áðan.