132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[18:24]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er samansett úr þremur og eiginlega fjórum atriðum og þau eru dálítið mismunandi. Í fyrsta lagi gengur frumvarpið út á það að slá botninn í þetta kvótakerfi eins og stjórnvöld vilja hafa það í bili með einhvers konar hámörkum á aflahlutdeild í krókaaflamarkinu. Auðvitað munu gallarnir á þessu fyrirkomulagi halda áfram að koma í ljós. Menn eru ekki enn þá búnir að átta sig á því að möguleikarnir til endurnýjunar og nýliðunar í greininni eru horfnir. Þeir eru eingöngu fólgnir í því að kaupa til sín veiðirétt á hæsta verði í dag en í gegnum tíðina voru göt í kerfinu sem tryggðu ákveðna nýliðun sem hefur farið fram á undanförnum árum. Sú nýliðun er úr sögunni. Það verður engin blómatíð í Bolungarvík aftur út á eitthvert fyrirkomulag eins og það sem tryggði veiðiheimildir þangað fyrir nokkrum árum. Það er liðin tíð.

Það er helsti gallinn fyrir utan eignarhaldsákvæðin í þessu fyrirkomulagi sem ég ætla ekki að ræða núna, að nýliðar eiga engan kost á því að komast með eðlilegum hætti inn í útgerð á Íslandi. Þetta á eftir að brenna mjög hart á byggðarlögunum sem byggja fyrst og fremst á veiðirétti og útgerð, smærri byggðarlögum alveg sérstaklega, og á næstunni mun alveg örugglega koma í ljós að þar getur orðið mikill vandi uppi.

Ég ætla ekki að tala meira um þetta. Ég ætla hins vegar að tala aðeins meira um 3. gr. Ég nefndi hana í andsvari við hæstv. ráðherra. Í henni er talað um að breyta fyrirkomulaginu á því að færa kvóta milli útgerða. Það þykir ekki ganga nógu skarpt og hratt fyrir sig. Nú skal þetta verða rafrænt þannig að menn séu fljótir að skutla veiðiheimildunum á milli. Allt gott um það, en það er óvart þannig að Fiskistofa hefur þarna hlutverk sem er mikilvægt. Í lögunum um stjórn fiskveiða er talað um hlutverk Fiskistofu og þar segir, með leyfi forseta:

„Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin skrá upplýsingar um flutning aflamarksins samkvæmt tilkynningu þar að lútandi. Ráðherra skal með reglugerð ákveða í hvaða formi tilkynningar til Fiskistofu um flutning aflamarks skuli vera. Sá sem tilkynnir um flutning aflamarks skal greiða Fiskistofu gjald að fjárhæð 2.000 kr. með hverri tilkynningu. Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.“

Þetta þarf allt að vera til staðar. Ég átta mig ekki alveg á því, það gerist rafrænt og ágætt væri að hæstv. ráðherra útskýrði svolítið fyrir okkur hv. þingmönnum hvernig þetta sé hugsað og gangi fyrir sig, sérstaklega þegar lengra er haldið. Það kemur fram í skýringum með 3. gr. að þar sé gert ráð fyrir því eða a.m.k. stefnt að því að hægt verði með rafrænum hætti að flytja veiðiréttinn á milli skyldra og óskyldra útgerða til framtíðar. Þarna þarf að ganga frá málum með fullnægjandi hætti auk þess sem það hefur líka komið mjög skýrt fram af hálfu ríkisskattstjóra að hann telji að þessara upplýsinga þurfi að afla, Fiskistofa hafi það hlutverk. Það hljóta þá að vera alvöruupplýsingar sem skattyfirvöld geta notfært sér í sambandi við eftirlit sitt. Það er vonandi alveg á hreinu hvað ég átti við þegar ég spurði hæstv. ráðherra um þetta atriði.

Það sem ég ætlaði mér að tala um fyrst og fremst í þessari ræðu minni er bráðabirgðaákvæði sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt með þessu lagafrumvarpi. Þar eru tvö atriði inni, annars vegar ákvæði til bráðabirgða, eins og segir í frumvarpinu, með leyfi hæstv. forseta: „Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. málsl. 5. mgr. 12. gr. skal úthlutað aflamark í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 ekki leiða til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum.“ — Þetta er merkileg tillaga. Hún gengur nefnilega út á að ekki þurfi að fara eftir þeim reglum sem hafa gilt alveg frá því að menn settu þessi lög, eftir að framsalið kom, þ.e. að menn þurfi að nýta sjálfir hluta veiðiheimildanna. Þetta er þannig núna að menn verða að veiða 50% annað hvert ár til að þeir missi ekki veiðiréttinn.

Þetta er líka nýtt að því leyti til að þarna er að mínu viti komið úr allt annarri átt að stjórnarskrárákvæðinu sem á sínum tíma var mikið umtalað í sambandi við úthlutun veiðiréttar. Þá höfðu menn vissa röksemd uppi um það ákvæði sem stendur í stjórnarskránni, með leyfi hæstv. forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.“ — Þessi klausa sem ég las á undan, „enda krefjist almannahagsmunir“, var höfð uppi þegar verið var að rökstyðja það að hægt væri að setja á veiðihamlanir, kvóta eða aðrar aðferðir til að stýra veiðum í fiskstofna, að almannahagsmunir krefðust þess að fiskstofnarnir yrðu varðir. Nú kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra með þá röksemd að það eigi að verja veiðiréttarhagsmuni útgerðarinnar. Menn eru komnir allt í einu hinum megin að málinu. Áður var vitnað í þessa grein með það í huga að það mætti skerða almenn réttindi manna til atvinnu af því að það þyrfti að vernda fiskstofna. Nú kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra og segir að ekki megi skerða veiðiréttarhagsmuni þeirra sem eigi veiðiréttinn.

Ég verð að segja að það er eins gott að menn átti sig þá á því hvor þýðingin er uppi, sú sem í upphafi var notuð eða sú sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er með uppi núna. Ég tel gjörsamlega fráleitt að hægt sé að bera því við að eitthvert tímabundið ástand eigi að valda því að menn breyti reglum eins og þessum í þeim tilgangi að vernda veiðirétt manna sem ekki nýta hann. Hvar er þá það ákvæði sem er í 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða? Ég bið hæstv. sjávarútvegsráðherra að svara því.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem“ — og takið eftir — „nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.“

Þetta stendur í lögunum um stjórn fiskveiða. Hæstv. sjávarútvegsráðherra getur ákveðið heildarafla úr þessum tegundum sem nauðsynlegt er að takmarka veiðar á.

Þegar niðurstaðan verður sú að hæstv. ráðherra úthlutar veiðirétti til útgerða sem útgerðin nýtir ekki, jafnvel ár eftir ár, hlýtur hæstv. ráðherra að þurfa að fara að horfa í eigin barm og vita hvort hann sé á réttri leið í því að úthluta veiðirétti sem er ekki notaður. Hvaða rök eru fyrir því að banna útgerðarmönnum sem hugsanlega mundu vilja nýta sér það að veiða rækju þær veiðar ef enginn annar vill veiða þó að kvótum hafi verið úthlutað? Hvaða þjóðhagsleg rök væru þá fyrir því? Nákvæmlega engin. Auðvitað væri þjóðhagslega hagkvæmt að menn nýttu þennan veiðirétt. Hvers vegna í ósköpunum ættu menn að verja eignarhald á veiðirétti með þessum hætti?

Ég veit ekki betur en að sumar tegundir af fiski hafi verið settar inn í kvóta og teknar út úr kvóta aftur, nákvæmlega af þeirri ástæðu að ekki var talin þörf fyrir kvóta á þeim af því að ekki þyrfti takmarkanirnar. Hæstv. ráðherra þarf að fara yfir þessa hluti, en að mínu viti er mjög athyglisvert að fá a.m.k. að heyra skýringarnar sem ættu að vera fyrir því að einhver almannaheill væru á bak við það að verja eignarhald útgerðarinnar á veiðiréttinum, útgerðar sem vill ekki nota þennan veiðirétt af því að það borgar sig ekki.

Ég tel að þetta bráðabirgðaákvæði þurfi býsna góðrar skoðunar við og ég mun beita mér fyrir því í starfi nefndarinnar að um það verði fjallað gaumgæfilega hvort sá tími sé kominn núna að menn geti notað einhver allt önnur rök en voru notuð á sínum tíma þegar ákvarðanir voru teknar um að fela sjávarútvegsráðherra í þessum lögum þetta hlutverk.

Hæstv. forseti. Það er svo sem hægt að ræða um sjávarútvegsmál endalaust, eins og oft hefur verið reyndin í sölum Alþingis, og ástandið í sjávarútveginum gefur auðvitað tilefni til þess núna. Hæstv. ráðherra lét að því liggja í andsvörum við mig hér fyrr í dag að útgerðin stæði illa og að menn ættu að standa við bakið á henni. Ég get algjörlega fallist á það. Ég tel samt rétt að menn hugi að þeim aðferðum sem við það eru notaðar. Ég get ekki séð að nein afsökun sé fólgin í því að fara einhverjar vafasamar leiðir og henda út í hafsauga röksemdum sem menn hafa notað sem aðalgrundvöll fyrir ákvörðunum sínum á fyrri tímum í sambandi við stjórn fiskveiða bara af því að það sé ástæða til að gera þessar breytingar.

Ég ætla að nefna hina breytinguna sem er fólgin í því að endurgreiða útgerðinni gjaldið. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ástæða til að rifja upp að í umræðum um veiðigjaldið, sem hér er verið að tala um, kom mjög skýrt fram frá stjórnarandastöðunni að hún teldi þetta fyrirkomulag á veiðigjaldinu ekki mjög sniðugt. Það voru fleiri en stjórnarandstæðingar sem sögðu það. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í ræðu mína við 2. umr. þegar verið var að setja veiðigjald á hér í sölum Alþingis.

Þar segir:

„Því veiðigjaldi sem lagt er til að upp verði tekið virðist vera ætlað að taka mið af afkomu greinarinnar. Ekkert tillit er þó tekið til aflaheimildanna eða verðmætis þeirra sem viðkomandi útgerðarmenn fá. Sú viðmiðun er þó aðgengileg því að verðmæti aflaheimilda liggur alltaf fyrir á sívirkum markaði. Fyrir fram má sjá að ýmsir gallar munu verða á framkvæmd þessa máls. Í fyrsta lagi verður gjaldið miðað við meðalafkomu í greininni árið á undan. Það kom fram í umfjöllun í nefndinni, m.a. frá aðilum frá Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun, að þarna væri í raun og veru valin mjög vafasöm aðferð. Það mun auðvitað gerast með þessari aðferð að þeir sem starfa í greininni geta lent í því að vera árum saman að borga verulega hærra gjald en afkoma þeirra gefur tilefni til. Og úr því að menn hafa valið þá leið að láta afkomu í greininni skipta þarna máli er það auðvitað ekki í samræmi við jafnræði almennt að hafa viðmiðun af þessu tagi. Gjaldið sem lagt er til er afar lágt miðað við raunverð þeirra aflaheimilda sem ríkið er að úthluta viðkomandi útgerðum í dag. Ef tillit er tekið til þess að um leið og það verður lagt á verða önnur gjöld á útgerðina lögð niður er um óverulega hækkun álaga á útgerðina að ræða miðað við afkomu fyrri ára. Þótt haft sé á orði að miða skuli við afkomu í sjávarútvegi er samt vitað að vegna aðferðarinnar við að ákveða gjaldið munu einstakar greinar útgerðar, ef illa árar í þeim, þurfa að borga sama gjald og hinar sem vel gengur í.“

Ég dreg sérstaklega fram það sem kom fram af hálfu bæði Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar, að þetta væri mjög óeðlilegt fyrirkomulag. Það hefur reyndar komið á daginn því að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mættur hér í sali Alþingis með tillögur um bráðabirgðabreytingar hvað þetta varðar. Kannski hefði verið ástæða til að hlusta á þessi varúðarorð á sínum tíma og reyna þá með einhverjum hætti að hafa þetta fyrirkomulag þannig að ekki kæmi upp vandi af þessu tagi. En hann er nú kominn upp.

Hæstv. forseti. Aðalerindi mitt í ræðustólinn var þetta sem ég fjallaði aðallega um í ræðu minni, þ.e. að þetta eignarhaldsfyrirkomulag sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hafa verið svo hrifin af og hafa í sjávarútveginum virðast vera að ganga út yfir allt. Gömlu rökin sem menn höfðu fyrir því að taka upp kvótakerfið á sínum tíma eru grafin og gleymd og þau eru notuð um eignarhaldið sjálft í dag, en þau eru ekki rökin fyrir því að stjórna fiskveiðum eins og þau voru í upphafi.