132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki skilið þetta svar öðruvísi en að hann sé ánægður með þá þróun að menn sæki frekar í stóra fiskinn en minni fiskinn. Ég er þessu ekki sammála. Ég er á því að við eigum að nýta öll fiskimið landsins. Ég tel þetta óráðssíu.

En mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar um annan þátt sem varðar það sem kemur fram í bráðabirgðaákvæðinu og kom einnig fram í ræðu hv. þingmanns. Það er þegar menn ná ekki að veiða rækjukvótann, hvort menn eigi þá að vera að takmarka veiðar. Hvort ekki sé einmitt ástæða þá til að opna fyrir að nýir aðilar geti komið inn í greinina og sótt t.d. í úthafsrækjuna. Af því að við erum náttúrlega ekki að setja þessi lög bara fyrir einstaka útgerðarmenn. Ég vona að hv. formaður sjávarútvegsnefndar átti sig á því að verið er að hugsa um almannahagsmuni. Ég er á því að almannahagsmunir (Forseti hringir.) verði til þess, herra forseti, að ráðlagður afli verði sóttur.