132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:21]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að komast betur að því hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar hvort honum finnist eðlilegt að aðilar sem ekki nýta þann veiðirétt sem þeim er úthlutað geti haldið honum, bara af því þeir séu blankir. Þá eigi menn að koma til Alþingis og fá einhverjar nýjar reglur og þá gildi ekki þær grundvallarreglur sem voru í upphafi um að fyrst og fremst þyrfti kvóta vegna fiskverndar. En nú skiptir kvótinn algerlega um hlutverk samkvæmt tillögu hæstv. sjávarútvegsráðherra og því sem hann hefur um þetta sagt, þ.e. að lögin eigi að tryggja mönnum veiðiréttinn fyrst og fremst en eigi ekki að tryggja fiskvernd. Ég velti því svolítið fyrir mér og mig langar að hlusta á hv. þingmann segja álit sitt á því á hvaða leið við erum með stjórn á fiskveiðum ef á að fara í þessa slóð með nýtingarréttinn, þ.e. að menn eigi bara að fá undanþágur frá þeim reglum sem eru í gildi ef standi illa á hjá þeim. Ég spyr: Finnst ekki hv. þingmanni frekar ástæða til að huga að annars konar stuðningi við þessa útgerð en þá að breyta reglunum gagnvart þessum aðilum og hafa þær allt öðruvísi en gagnvart öðrum aðilum í sjávarútvegi sem stunda aðrar veiðar en þær sem hér eru til umræðu?