132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:23]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr hvort ekki sé eðlilegt að nýta veiðirétt frekar en að þeir haldi honum sem eru blankir. Við erum að tala um mjög sérstakar aðstæður í rækjuiðnaði. Við erum búin að fara í gegnum þetta mál á Alþingi og þar hafa flokksbræður hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, menn sem eru úr byggðum eins og Siglufirði, farið yfir þá stöðu og erfiðleika. Það væri óeðlilegt að bregðast við með öðrum hætti en við gerum í dag. Þetta er ekki almenn aðgerð. Það er alveg ljóst. Menn ætla ekki að gera þetta með flestar tegundir ef menn halda það. Verið er að bregðast við með bráðabirgðaákvæði og það er mjög eðlilegt að brugðist sé við á þennan hátt. Við erum búin að horfa á sársaukafull gjaldþrot í þessum iðnaði í dag. Þetta hefur verið mjög erfitt. Það hefur gengið misjafnlega í rækjuiðnaði. Við vitum það líka.

Við skulum einnig taka dæmi varðandi loðnuna. Það yrði erfitt, sérstaklega hjá einyrkjunum, ef engin loðna hefði fundist í ár. Það er ljóst. Við getum endalaust rætt um það þegar menn ná ekki að veiða það sem þarf og aðra erfiðleika, hvenær menn eigi að beita 9. gr. og hvenær ekki. Það er líka mjög vandmeðfarið ákvæði. En þetta er ekki sanngjörn umræða miðað við hvernig hún hefur verið á Alþingi um vanda rækjuiðnaðarins.