132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:28]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ræddi um betra rekstrarumhverfi. Við vitum að það sem er að gerast alls staðar í kringum okkur er fækkun, t.d. í þessu kerfi. Það er fækkun í verslun og þjónustu. Það er fækkun alls staðar. Það er fækkun í raforkufyrirtækjum. Það eru sameiningar og annað. Þetta er bara það sem er að gerast. (Gripið fram í.) En við erum samt sem áður að tala um jafnmikinn fisk upp úr sjó á færri skipum. Það er alveg ljóst. Það er ekki rökrétt að ræða um að verið sé að færa mönnum 40–50 milljónir. Umræðan gleymst alltaf, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan. Það var verið að selja sóknardaga og báta líka. Það á að ræða þá um mismuninn ef menn vilja rökræða þetta. En það sem gerðist var að þeir sem voru í sóknardagakerfinu veðsettu allt sem þeir áttu, húsin sín og skyldmenni gengu jafnvel í ábyrgðir. Þarna er þá komið ákveðið öryggi í að geta veitt ákveðinn afla á hverju ári. Ekki er hægt labba til bankastjórans í sóknardagakerfinu og segja: Getur þú lánað mér? Ég ætla að veiða 50 tonn á næsta ári og greiða lánið upp. Það er langtum betri hagræðing í því að hafa fastar aflaheimildir á skipinu. Það er bara staðreynd.

Þeir aðilar sem komu til okkar í sjávarútvegsnefnd þegar þetta mál var til umræðu gerðu okkur alveg grein fyrir því hvernig þeir sæju þetta gerast. Þá heyrðist ekki eins hátt í mönnum sem voru á móti þessu.