132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:23]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur verið sagt, að ólíklegt er að þetta sé síðasta frumvarpið sem við sjáum til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Hv. þm. Jón Gunnarsson greindi frá því að á þeim hefði orðið um 35 breytingar á 15 árum og væri ekki allt upptalið í þeim efnum. Það er rétt hjá honum.

Frumvarpið sem hér er um að ræða tekur á fimm eða sex efnisatriðum þannig að ef það er nú allt tekið með í kippu verðum við komin eitthvað á fimmta tuginn í breytingum. En það tel ég út af fyrir sig ekki óeðlilegt eða gagnrýnisefni. Þvert á móti sést af því að við höfum þróað þessi mál. Breytingarnar eru að mínu mati til marks um að tekið hafi verið tillit til umræðunnar eins og hún hefur verið hverju sinni. Menn hafa reynt að bregðast við og hafa forgöngu um mótun stefnu sem menn telja horfa í skynsemdarátt. Mér finnst það ekki slæmt í sjálfu sér.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni, 10. þingmanni Suðurkjördæmis, um að sjávarútvegurinn verði að geta búið við ákveðna festu. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna að. Frumvarpið sem hér er fjallað um miðar m.a. að því að draga út tilkostnað í greininni og bregðast við vanda á tilteknum sviðum.

Hv. þingmenn hafa töluvert spurt um 3. gr. frumvarpsins. Það er eðlilegt. Hér er um að ræða breytingu sem er ekki stór efnisbreyting en er hins vegar til þess fallin að draga úr tilkostnaði í greininni. Það er eitt af þeim verkefnum sem við verðum að sinna á öllum tímum, að reyna að lækka kostnað. Eins og hér hefur komið fram þarf sjávarútvegurinn að geta staðið undir góðum lífskjörum. Hluti af því er að reyna að sjá til að við leggjum ekki á hann óþarfa álögur og kostnað. Hv. þingmenn hafa út af fyrir sig ekki mótmælt fyrirkomulaginu. Það sem menn hafa hins vegar velt fyrir sér, sem er eðlilegt, er hvort þessi breyting muni leiða til að þær upplýsingar sem hafa legið fyrir innan Fiskistofu og hjá skyldum aðilum, Verðlagsstofu skiptaverðs o.s.frv., verði minna gagnsæjar en áður. Verður erfiðara að fá þessar upplýsingar? Mun t.d. skatturinn eiga erfiðara með að fá þær upplýsingar sem hann þarf á að halda o.s.frv.? Ég verð einfaldlega segja að ekkert slíkt vakir fyrir mönnum.

Hér eru eingöngu lagðar til breytingar sem leiða af sér lægri kostnað. Allar þær upplýsingar sem Fiskistofa þarf á að halda og sem Verðlagsstofa skiptaverð þarf á að halda, m.a. til að tryggja að staðið sé með eðlilegum hætti að skiptum milli útgerðar og sjómanna, verða til staðar og jafnaðgengilegar fyrir þá sem á þeim þurfa að halda. Hið sama gildir um skattinn. Hér er gert ráð fyrir þjónustusamningi milli Fiskistofu og þeirra sem fá heimild til að færa kvóta með þeim hætti sem kveðið er á um í 3. gr. Sjálfsagt er að í þjónustusamningnum verði kveðið á um það, og þau skilyrði sett sem duga til að upplýsingarnar liggi fyrir. Ég vil því leggja mikla áherslu á að ekkert í þessum efnum gerir það að verkum að eitthvað tregara verði um upplýsingagjöf. Við erum jú líka með lög, t.d. varðandi Verðlagsstofu skiptaverðs, sem kveða á um hlutverk við að fylgjast með verðmyndun í sjávarútvegi, til að tryggja m.a. að menn standi við kjarasamninga.

Hv. þingmenn hafa einnig gert að umræðuefni ákvæði til bráðabirgða, þ.e. þar sem kveðið er á um að fiskiskip missi ekki aflahlutdeild sína þegar svo stendur á sem nú varðandi rækjuna. Þetta er auðvitað mjög eðlilegt ákvæði. Það stendur sérstaklega á varðandi rækjuna. Ef við bregðumst ekki við með þessum hætti getur auðvitað skapast sú hætta að menn missi veiðiréttinn. Menn geta alltaf varist með þessum hætti. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því, ef menn stæðu frammi fyrir því að þetta ákvæði yrði ekki samþykkt, að menn hefðu ekki tök á því að koma sér fram hjá þessu, ekki allir en a.m.k. margir hverjir.

Það er á hinn bóginn engin ástæða til að gera lögin þannig að menn þurfi að beita einhverjum hundakúnstum í þessu sambandi. Það er miklu eðlilegra að við viðurkennum einfaldlega það sem um er að ræða, sérstakt vandamál sem er eðlilegt að takast á við. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur velt því fyrir sér hvort í þessu felist brot á stjórnarskrá. Það tel ég ákaflega langsótt. Hér er einfaldlega tekin um það ákvörðun, tímabundin ákvörðun, að létta af veiðiskyldukvöð. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni áðan þegar ég ræddi þessi mál, að ekki væri horfið frá grundvallarhugmyndinni um veiðiskyldu. Þar fyrir utan vitum við að lög um veiðiskyldu hafa breyst á undanförnum árum.

Við vorum með miklu veikari veiðiskyldu áður fyrr. Við tókum síðan um það pólitíska ákvörðun, m.a. að áeggjan sjómannasamtakanna, að auka veiðiskylduna. Margir töldu reyndar að í því fælist brot á stjórnarskrá vegna þess að aðgangur að greininni væri takmarkaður með þeim hætti, dregið úr leiguframsali o.s.frv. Ég var ósammála því eins og ég er ósammála því sem hv. þingmaður segir nú, að við brjótum með ákvæðum frumvarpsins gegn stjórnarskrá. Hv. þingmaður spyr af hverju ætti að vernda veiðirétt manna. Ég vil vekja athygli á því að hv. þingmaður, sem hefur verið talsmaður þess að fyrna veiðirétt manna, hefur aldrei treyst sér til að gera slíkt nema á 10–20 árum eða eitthvað svoleiðis. Er það ekki rétt? Fimm árum fyrst, 10 árum, 20 árum — býður einhver betur?

Engum hefur mér vitanlega dottið í hug að taka ætti veiðirétt af mönnum, allra síst þeim mönnum sem standa hvað veikast og liggja nánast á hliðinni þegar svona stendur á varðandi rækjuna, að taka burtu veiðirétt manna á einu ári vegna þess að þeir geti ekki veitt eitt ár eða tvö. Á þá bara einfaldlega taka af þeim veiðiréttinn? Ég gat ekki skilið orð hv. þingmanns öðruvísi en svo að hann væri að tala um það. Mér finnst kjarni málsins vera þessi: Við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Hv. þingmaður Kristján L. Möller hefur brýnt mig í að við þurfum að ganga enn þá lengra til móts við veiðiréttarhafana. Færa þeim sérstakar aflabætur til að tryggja þeim veiðiréttinn til frambúðar. Ég hef verið tregur til að gangast inn á það.

Þess vegna finnst mér svolítið skrýtið að síðan komi gagnrýni á frumvarpið sem felur það í sér að reyna að búa til ívilnandi aðgerðir sem koma í veg fyrir að menn missi veiðirétt sinn. Það er auðvitað í samræmi við það sem hv. þm. Jón Bjarnason spurði mig að mig hér áðan, þ.e. hvað eigi að gera fyrir rækjubyggðirnar. Hér er verið að taka á því að vissu leyti með því að ívilna varðandi veiðigjaldið og eins með því að koma til móts við útgerðir með þessum hætti sem ég hef hér farið aðeins yfir.

Þriðja atriðið sem menn hafa gert hér að umræðuefni og skiptir mjög miklu máli er ákvæðið sem getur að líta í 2. gr. frumvarpsins og snýr að hámarki í krókaaflahlutdeild. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spurði mig: „Af hverju ekki aðrar tegundir?“ Ég svaraði því reyndar í andsvari áðan. Ég fór yfir það að eftir að við höfðum skoðað þessi mál sýndist okkur að við vanda væri fyrst og fremst að eiga í þessum tveimur tegundum, það væri mun meiri dreifing á öðrum tegundum. Hins vegar hef ég líka lýst því yfir að ég sé alveg opinn fyrir því að þessi mál séu skoðuð sérstaklega með hliðsjón af þessum tegundum, öðrum tegundum sem menn hafa verið að tala um. Ég hef verið og er talsmaður þess að hafa kvótaþak sem menn hafa kallað svo. Góður og málvís maður gagnrýndi mig, hringdi í mig og sagði að það væri ekki gott orð þannig að við skulum í nafni málverndarstefnu finna annað, eitthvert þak á þessar aflaheimildir, eitthvað sem gerir það að verkum að aflaheimildirnar geta ekki safnast saman á mjög fárra hendur.

Þetta eru út af fyrir sig sömu spurningarnar og hv. þm. Sandra Franks spurði mig áðan, þ.e. hvort vísindaleg rök væru fyrir þessum tölum, af hverju ekki væru sömu tölur og í stærra kerfinu og hún spurði hvort ég væri tilbúinn til þess að leggja til lægri tölur í stærra kerfinu. Það er alveg rétt að það eru engin vísindaleg rök fyrir þessum tölum. Það er auðvitað þannig og það eru ekki til nein vísindaleg rök. Þetta er pólitísk ákvörðun sem lýtur að því að reyna að dreifa veiðiréttinum. Ég tel reyndar að sérstök rök séu fyrir því að dreifa veiðiréttinum í þessu smábátakerfi vegna tilurðar kerfisins sem hafði það markmið að reyna að tryggja tiltekna dreifingu veiðiréttar bæði landfræðilega og á milli útgerða. Síðan er það hitt sem skiptir líka miklu máli og það er að í þessu stóra kerfi þurfum við á stórum og öflugum fyrirtækjum að halda, eins og mér finnst hv. þingmenn hafa sagt öðrum þræði líka í þessari umræðu. Þeim er sett ákveðið þak, 12% heildarþak, og undir því verða menn síðan að starfa. Við þurfum hins vegar á mjög stórum og öflugum fyrirtækjum að halda í þessu kerfi til þess að takast á við mjög miklar og dýrar fjárfestingar eins og við sjáum t.d. núna í uppsjávarflotanum. Þess vegna held ég að tiltekin rök séu fyrir því að hafa þessar prósentur hærri í stóra kerfinu.

Þegar ég var formaður sjávarútvegsnefndar fór það nú svo í nefndinni að við lögðum til lækkun á þeim tölum sem upphaflega voru settar fram í frumvarpinu þannig að menn vita nú í hvaða átt minn hugur hefur staðið í þessum efnum. Ég hef viljað halda þessu þaki eða hámarki — svo að ég fari nú ekki aftur að brjóta gegn íslenskri tungu — sem við höfum þarna og því hef ég sett þetta upp í þessu sambandi í smábátakerfinu. Það eru mín rök fyrir því að hafa tölurnar lægri í þessu kerfi en í stóra kerfinu.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort mörkin mættu lækka. Ég benti á að þetta frumvarp hefði meðal annars verið sniðið að þeim veruleika sem blasir við okkur í útgerðinni núna. Við vorum að reyna að gera það þannig að frumvarpið leiddi ekki til skerðingar fyrir þá sem núna starfa þarna. Þetta var hugsað fyrst og fremst til þess að tryggja tiltekna þróun frekar en til þess að berja niður eitthvað sem þegar hefði átt sér stað.

Ein ástæðan fyrir því að við stöndum í þessum sporum er vitaskuld sú að það hefur verið vaxandi sókn inn í smábátakerfið Það er út af fyrir sig jákvætt og áhugavert efni vegna þess að það er til marks um að menn sjá þarna tækifæri í íslenskri útgerð á grundvelli smábátakerfisins. Þetta finnst mér út af fyrir sig jákvætt vegna þess að þegar við settum þetta kerfi á fót á sínum tíma voru þeir ófáir sem sögðu: „Nú er verið að dæma sjávarbyggðirnar til fátæktar. Þetta smábátakerfi er óskilvirkt. Það mun ekki standast stóra kerfinu snúning. Smábátakerfið verður til þess að til verður tvenns konar sjávarútvegur, lakari sjávarútvegur í smábátakerfinu, öflugri í stóra aflamarkskerfinu.“

Nú er hið gagnstæða að koma á daginn. Nú er það að koma á daginn að menn sækja inn í smábátakerfið vegna þess einfaldlega að við höfum reynt að breyta því. Við höfum í fyrsta lagi reynt að auka sóknarréttinn, veiðiréttinn í þessu kerfi. Við höfum fært aflaheimildir inn í kerfið og það er ómótmælanlegt. Það er að veiðast æ meira í þessu kerfi í heildina og í annan stað höfum við líka smíðað önnur úrræði, almenn úrræði sem hafa gagnast þessu kerfi vel. Þar á ég t.d. við línuívilnunina. Enginn vafi leikur á því að ein ástæðan fyrir því að menn sjá möguleika í þessu kerfi er sú að menn fá þar 16% ívilnun í línu. Það gerir það að verkum, ekki síst við þær aðstæður sem núna eru í hafinu í kringum okkur og menn hafa hér verið að tala um, að þessar línuveiðar hafa verið hagkvæmar og öflugar og gefið heilmikla möguleika og þess vegna eru menn meðal annars að sækja inn í þetta.

Virðulegi forseti. Það fer nú eitthvað að ganga á minn tíma. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurði mig mjög um það hver væri afstaða mín til þess að ekki væru kjarasamningar milli sjómanna á smábátunum og Landssambands smábátaeigenda eða einstakra félaga þeirra. Ég vil einfaldlega vísa í svar forustumanna Landssambands smábátaeigenda á aðalfundi þess núna í haust þegar þeir voru spurðir um þetta mál alveg sérstaklega. Ég held að ég muni það alveg rétt að þeir hafi lýst því þá yfir að þeir hygðust ganga til samningaviðræðna um þessi mál við sitt fólk. Samningsrétturinn er þeirra megin og ég mun ekki fara að skipta mér af því eða blanda mér í það þó að ég sé alveg sammála því að sjómenn á þessum bátum verða að hafa sín réttindi. Það gefur augaleið. Það er líka í þágu útgerðanna sjálfra að menn séu með þessa hluti sína alla í lagi. En vissulega er einn hluti af styrkleika smábátakerfisins sveigjanleikinn og sá sveigjanleiki hefur meðal annars gefið mönnum færi á að sækja á dögum sem þeir hefðu ella ekki haft möguleika til. En það breytir ekki því að vitaskuld þurfa að vera lágmarksréttindi í þessu kerfi, í þessum flota.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka upp almenna sjávarútvegsumræðu. Tími minn leyfir það ekki núna. Það er ekkert óeðlilegt við að menn efni til pólitískrar almennrar umræðu um sjávarútvegsmál þegar frumvarp af þessu taginu liggur fyrir. Þetta frumvarp snertir marga þætti þess. Það snertir veiðileyfagjaldsumræðuna og ekki er óeðlilegt að menn taki þá umræðu. Þessi umræða snertir líka kjarna smábátaútgerðarinnar og þess sem við höfum reynt, nefnilega að styrkja smábátaútgerðina í heild sinni. Við sjáum, hvað sem hver segir, að smábátaútgerðin á Íslandi í dag er almennt talað og í heild sinni öflugur útgerðarmáti. Það sést best á því að menn sækja inn í þessa útgerð og hafa áhuga á því að hasla sér þar völl. Það er því ekkert óeðlilegt við það þegar slík mál eru flutt hér í frumvarpsformi að menn taki almenna umræðu um sjávarútvegsmálin, en ég hef reynt á þessum mínútum sem ég hafði að fara yfir þau efni sem sérstaklega voru álitaefni og sneru að frumvarpinu beint og reynt að svara þeim spurningum sem fyrir mig voru lagðar. Ef til vill hef ég hlaupið yfir eitthvað. En ég vildi að minnsta kosti reyna að fara yfir þau mál sem ég taldi sérstaklega snúa að frumvarpinu og var beint til mín efnislega eða í spurningarformi.