132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög erfitt að greina á þessum orðaflaumi hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann sæi eftir þessu eða ekki. Það mætti halda að hann hefði bara verið bundinn til þess og neyddur til að ýta á hnappinn til að taka þátt í þessu óhæfuverki gagnvart Vestfirðingum. En mig langar að spyrja annarrar spurningar fyrst ég fékk ekki svar við þessari. Þó skynja ég að hann muni vera mjög sáttur við þetta.

Hin spurningin hljóðar svo: Er hann sammála hv. formanni sjávarútvegsnefndar að það sé jafnvel bara jákvætt að allar aflaheimildir streymi að norðan og suður á land? Finnst honum þetta bara jákvætt? Það var ekki að heyra annað en að hv. formaður sjávarútvegsnefndar væri sáttur. Ég spyr vegna þess að markmið þessa frumvarps er að dreifa veiðiréttinum. Og ég spyr: Hvers vegna er hann ekki bundinn að einhverju leyti við landsvæði? Það er alveg auðséð og öll rök hníga til þess að hann (Forseti hringir.) muni streyma í meiri mæli þangað sem meiri von er um stóran fisk. Og það er fyrir sunnan land.