132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra biður um að honum sé trúað. Það er bara svo erfitt að trúa hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar maður les hans gömlu ræður og greinar. Þegar maður les hans gömlu yfirlýsingar eins og ég gerði áðan, skoðar þann málflutning og sér síðan hvernig verkin hafa verið er svo erfitt að treysta, svo erfitt að trúa, jafnvel þótt maður gjarnan vildi gera það. Það er bara svo erfitt þegar menn hafa hvað eftir annað verið staðnir að því lofa einu fyrir kosningar og gera síðan allt annað þegar búið er að kjósa.

Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig hæstv. sjávarútvegsráðherra mætir kjósendum sínum í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar árið 2007 með þennan verknað á bakinu. Mig grunar að núna fari þannig að þetta ferli sem hófst eftir að lögin voru samþykkt í maí 2004 muni halda áfram, og það muni halda áfram að fjara undan sjávarbyggðunum. Og hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að muna að þar eru atkvæði hans falin, (Forseti hringir.) en það verður ekki áfram ef fram fer sem horfir.