132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:33]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem viðskiptaráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Sem sagt opinber hlutafélög.

Eins og heiti frumvarpsins gefur til kynna er stefnt að því að gera nokkrar breytingar á lögum um hlutafélög en þau lög geyma almennar leikreglur um hlutafélög. Breytingarnar fela í sér að skotið er inn í lögin nokkrum ákvæðum um opinber hlutafélög. Ég vil taka fram strax í upphafi að í tímans rás hafa ýmist verið sett sérlög eða sérlagaákvæði um sum hlutafélög í eigu hins opinbera, t.d. um viðskiptabanka á sínum tíma, en þau lög hafa þá falið í sér undanþágu frá almennum reglum hlutafélagalaganna. Þá má sérstaklega nefna að ýmis dæmi eru um sérlög um hlutafélög í eigu opinberra aðila á sviði iðnaðar. Þar eð stefnt er að því í ríkari mæli en áður var að gera vissar ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki að hlutafélögum,

(Forseti (SP): Forseta finnst vera of mikill kliður í salnum og í hliðarherbergjum og biður hv. þingmenn um að veita ræðumanni hljóð.)

nú síðast Ríkisútvarpið og Rafmagnsveitur ríkisins, þykir rétt að nota tækifærið og setja nokkur almenn ákvæði um opinber hlutafélög í lögin um hlutafélög.

Við samningu frumvarpsins var m.a. litið til ákvæða í Danmörku og Noregi en ekki hafa verið sett almenn lög um opinber hlutafélög í þeim löndum. Haft er sérstaklega í huga að ákvæði stjórnsýslulaga, laga um upplýsingaskyldu og laga um opinbera starfsmenn sem gilda um ríkisstofnanir, gilda ekki formlega um opinber hlutafélög. En ástæða þykir til að gefa kost á betra aðhaldi með opinberum hlutafélögum með því að setja sérstök ákvæði um þau hvað snertir upplýsingaskyldu.

Í frumvarpinu er að finna skilgreiningu á opinberu hlutafélagi. Það eru ákvæði um að gæta skuli að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við kjör í stjórn opinbers hlutafélags, ákvæði um skýrslugjöf stjórnarmanna um eign þeirra í félögum, og ákvæði um birtingu samþykkta og starfsreglna á vefnum svo og birtingu ársreikninga og samstæðureikninga á vefnum, auk hálfs árs uppgjörs eins og kröfur eru gerðar til í verðbréfalöggjöf varðandi hlutafélög sem skráð eru á opinberan verðbréfamarkað.

Þá eru í frumvarpinu heimildir til að handa fulltrúum fjölmiðla að sækja aðalfund og hafa aðgang að fundargerðum aðalfundar. Að því er varðar einstakar greinar vil ég taka eftirfarandi fram:

Í 1. gr. eru opinber hlutafélög skilgreind sem hlutafélag sem hið opinbera á að öllu leyti. Hlutafé getur t.d. verið í eigu ríkisins, ríkisstofnunar, sveitarfélags og stofnanir sveitarfélaga. Eigi hið opinbera ekki félagið að öllu leyti, t.d. aðeins 51% í því, gilda ákvæði ekki um slík félög enda geta þau flest líkst venjulegum félögum. Frumvarpið tekur ekki til einkahlutafélaga í eigu hins opinbera.

Hvað snertir 2. gr. er um að ræða sérstaka skírskotun til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar valið er í stjórn opinbers hlutafélags. Er sérstök þörf á því að hugað verði að jafnrétti í stjórnun opinberra hlutafélaga. Ekki er gengið eins langt og í Noregi þar sem nákvæmlega er tilgreint í lögum hversu hátt hlutfall kvenna eigi að vera að lágmarki í þriggja manna stjórn, fimm manna stjórn o.s.frv. Í Noregi er oft talað um 40% regluna varðandi opinber hlutafélög og þar í landi er reyndar stefnt að sams konar reglu varðandi hlutafélög almennt.

Samkvæmt lögum um hlutafélög er stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum skylt að gefa skýrslu um hlutaeign sína í viðkomandi félagi eða félögum innan sömu samstæðu. Sjónarmið um hagsmunaárekstra geta átt hér við. Eðlilegt þykir að svipað gildi um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra í opinberum félögum.

Í 4. gr. er fjallað um birtingu starfsreglna stjórna í opinberum hlutafélögum á vefsíðu félagsins eða annars staðar á vefnum. Slíkar reglur geta skipt máli um skilning stjórnarmanna og fleiri aðila á starfsemi félaganna. Svipuð ákvæði eru í 9. gr. um birtingu samþykkta félagsins á vefnum. Ákvæði þessi um upplýsingar á vefnum auka m.a. aðgengi almennings að upplýsingum um félagið og er slíkt ódýrara en að kaupa slíkar upplýsingar fyrir milligöngu hlutafélagaskrár. Bætt aðgengi að upplýsingum getur síðan aukið aðhald með opinberum hlutafélögum.

Að danskri fyrirmynd er í 5. gr. heimilað að fjölmiðlar megi sækja aðalfundi í opinberum hlutafélögum en með þeim hætti geta aðilar, m.a. almenningur fengið meiri upplýsingar um málefni þessara félaga.

Í 6. gr. er einnig tekið fram að boða skuli fulltrúa fjölmiðla á aðalfund svo og stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins sem hafa mesta þekkingu á skipulegri starfsemi félagsins og geta svarað spurningum hluthafa. Ekki er þó gert ráð fyrir því að fulltrúar fjölmiðla hafi málfrelsi á aðalfundum eða geti krafist gagna. Félaginu er að sjálfsögðu heimilt að bjóða fleiri aðilum á hluthafafundi, en skylt er að bjóða á fundina, t.d. fulltrúum starfsmanna.

Skv. 7. gr. eiga fulltrúar fjölmiðla aðgang að fundargerðum aðalfundar opinbers hlutafélags en félagið getur, ef því sýnist svo, veitt rýmri aðgang að fundargerðum sínum, jafnvel á vefnum.

Í 8. gr. frumvarpsins er vikið að því að upplýsingar sem lagðar eru fram á hluthafafundi geti falið í sér svör við spurningum hlutaðeigandi stjórnar og framkvæmdastjóra. Þannig getur hinn opinberi aðili, eigandi hlutafélagsins, haft áhrif m.a. á stjórnun félagsins. Eigandinn getur og haft áhrif með ýmsum öðrum hætti. Þannig getur hann t.d. beðið um hluthafafund í opinbera hlutafélaginu samkvæmt almennum reglum hlutafélagalaga og skipt um stjórn í því. Þótt sett verði viss ákvæði um opinber hlutafélög inn í lögin um hlutafélög má ekki gleyma því að ýmis ákvæði um opinber hlutafélög geta leynst í öðrum lögum. Ég nefndi nokkur lög í upphafi máls míns, en bæta má við tilvísun í lög um bókhald og ársreikninga sem heyra í framkvæmdinni undir fjármálaráðherra. Bókhalds- og ársreikningslöggjöfin er í stöðugri endurskoðun og reyndar hlutafélagalöggjöfin almennt, m.a. vegna nýrra EES-reglna, svo sem um starfskjarastefnu.

Þá er athyglisverð ákvæði að finna í lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, í 2. mgr. 6. gr. þeirra laga, er þannig áskilið að á aðalfundi í hlutafélagi sem ríkissjóður á helmingshlut eða meira í skuli gerð tillaga um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga þess félags.

Í 9. gr. sömu laga segir að Ríkisendurskoðun geti framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun í slíku ríkishlutafélagi.

Í slíkri endurskoðun felst að könnuð yrði meðferð og nýting ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmæli sé framfylgt í þessu sambandi.

Skv. 10. gr. laganna um Ríkisendurskoðun segir að hún hafi aðgang að öllum gögnum sem máli skipta varðandi stjórnsýsluendurskoðun hennar.

Segja má um ákvæði frumvarpsins að auknu frelsi vegna breytingar á opinberum stofnunum í opinber hlutafélög fylgi auknar skyldur sem eðlilegt sé að setja ákvæði um í lögum. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki áhrif á útgjöld ríkisins verði það óbreytt að lögum.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.