132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru örfá atriði sem ég hefði viljað fá aðeins skýrð út hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra varðandi frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög, sem felur í sér að sérákvæði gildi um opinber hlutafélög.

Ég vil í fyrstu segja það, frú forseti, að hlutafélagaformið er ágætt fyrir samkeppnisrekstur í atvinnulífinu en varðandi almannaþjónustustofnanir þá tel ég það frekar óheppilegt og reyndar rangt.

Ég vil hins vegar spyrja ráðherrann um 1. gr., þ.e. skilgreininguna á opinberu hlutafélagi en í frumvarpinu er talað um að öllu leyti í eigu opinberra aðila. Ef staðan væri sú að bara 51% væri í eigu opinberra aðila þá velti ég fyrir mér hver skilgreiningin væri. Eða hvort þetta gildi um félög sem eru opinber en ríki eða sveitarfélög eigi aðild að. Mér finnst mjög ósanngjarnt, frú forseti, að þetta sé einskorðað við að það þurfi að vera 100% og spyr um hvort svo sé.

Í öðru lagi spyr ég um upplýsingalög. Hvers vegna eru almenn ákvæði upplýsingalaga um upplýsingaskyldu hins opinbera ekki látin gilda um þessi hlutafélög í eigu opinberra aðila? Hérna er fyrst og fremst verið að huga að rekstrarformi en almannaskyldan ætti að vera óbreytt að mínu mati og réttur almennings til upplýsinga ætti að vera ótvíræður. Þess vegna finnst mér að almenn ákvæði upplýsingalaga ættu að gilda. Hvers vegna er það ekki? Við erum í rauninni öll hluthafar í slíku hlutafélagi.