132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:44]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þakklát fyrir þann jákvæða tón sem birtist í upphafi þessarar umræðu hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þar sem hann telur að hlutafélagaformið sé ágætt í sambandi við samkeppnisrekstur og þar er ég mjög sammála honum. En það sem hann rekur augun í og veltir fyrir sér er ákvæðið í 1. gr. um að félögin þurfi að vera að öllu leyti í eigu ríkisins. Þetta er einfaldlega sú leið sem ákveðið var að fara í sambandi við þetta frumvarp. Við erum að tala um fyrirtæki sem breytt er í hlutafélög í eigu ríkisins t.d. vegna þess að viðkomandi fyrirtæki er í samkeppnisrekstri. Sem dæmi hvað þetta varðar má nefna þau fyrirtæki sem kannski hafa verið einna mest til umfjöllunar upp á síðkastið, þ.e. Ríkisútvarpið og Rarik.

Með þessu frumvarpi er einmitt verið að leitast við að bæta réttarstöðu almennings gagnvart þessum félögum hvað varðar upplýsingagjöf vegna þess að séu viðkomandi stofnanir orðnar að hlutafélagi þá gilda um þau lög um hlutafélög. En með því að bæta þessum ákvæðum inn í lögin sem hér um ræðir, þá erum við að bæta stöðu almennings gagnvart slíkum fyrirtækjum með því að þau hafi greiðari aðgang að upplýsingum, eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan.