132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa flutt þetta frumvarp um opinber hlutafélög. Það mun vera um ár síðan við áttum síðast samræðu um það hér og þá var skilningur á því að eitthvað slíkt þyrfti að vera til ekki mikill af hálfu ráðherrans. En hann hefur sem sé aukist.

Hugsunin í þessu frumvarpi virðist vera sú að það sé í gegnum fjölmiðla og að einhverju leyti í gegnum netið sem á að tryggja aðgang almennings að upplýsingum um slík hlutafélög og hvað gerist þar. Það er að minnsta kosti ekki þannig, eins og iðnaðarráðherra sagði, að upplýsingalög eigi að gilda og svörin eru þau: Af því að það hefur aldrei verið. Það er mjög ráðherralegt svar og aðdáunarvert. Það hefur aldrei verið svo og þess vegna á það aldrei að verða svo í framtíðinni. Ég vil því spyrja um rétt fjölmiðla sem hér kemur einkum við sögu. Hvers vegna er það svo í 6. gr. að ekki skuli boða fjölmiðla og ekki hleypa þeim á hluthafafund en aðeins á aðalfund? Hluthafafundur í svona félögum er þannig að ráðherra situr þar einn, eða fulltrúi hans, með sínum mönnum. Það væri fullkomlega eðlilegt að fulltrúar fjölmiðla gætu farið þangað eins og á aðalfund. Enda kannski merkari atburðir sem verða á einstökum hluthafafundum sem boðað er til sérstaklega en á aðalfundi.

Í öðru lagi, hver er réttur fjölmiðlamanna á þessum fundum? Það þarf að koma mjög skýrt fram vegna þess að það gerir það ekki í lögunum eða í greinargerðinni. Mig minnir að viðskiptaráðherra hæstv. hafi sagt áðan að þeir hefðu engan rétt. Þeir hefðu rétt til að mæta en þeir hefðu engan rétt umfram það. Og ég spyr: Af hverju er það í ræðu ráðherrans en ekki í greinargerðinni sjálfri útskýrt hvaða rétt fjölmiðlar hafa? Það skiptir öllu máli hvaða rétt fjölmiðlar hafa. Í raun og veru er réttur þeirra að því að mér sýnist sá að senda megi ljósmyndara inn á fundinn og taka mynd af fundarmönnum. Það er svona nokkuð svipað. Ég vil gjarnan fá svör við þessu hjá hæstv. ráðherra.