132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[15:00]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég biðst afsökunar á því að vera ekki nógu vel að mér í þingsköpum og geta ekki flett upp á þeirri grein. Mig minnir að þetta varði forseta, aukinn meiri hluti á þingi.

Nú er það klárt að aukinn meiri hluti er nokkrum sinnum nefndur í stjórnarskránni þannig að það er ekkert nýtt í okkar lögum hvað þá fundarsköpum og félagslögum á Íslandi og þótt farið sé víðar. En það sem ég bendi hv. þingmanni á og var að reyna að gera honum ljóst er að væru sett lög um að aukinn meiri hluta þyrfti til að breyta lögum þá væri eðlilegt að ákvæði væri um að það þyrfti líka aukinn meiri hluta til að breyta ákvæðinu um aukinn meiri hluta. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að ef verður hægt að afnema ákvæðið um aukinn meiri hluta með einföldum meiri hluta, þá er ákvæðið til lítils. Ég geri ráð fyrir að þetta sé svona. Ég hef ekki lagst ofan í það en mér finnst eðlilegt að það sé þannig afgreitt.

En á hinn bóginn má auðvitað spyrja: Af hverju eru menn með ákvæði um aukinn meiri hluta í félagslögum, í stjórnarskrá og í þingsköpum? Er það ekki bara einhver vitleysa? Er ekki lýðræðið það að meiri hlutinn ráði eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi haldið fram og svo þurfi í rauninni ekkert meira en það? Það séu kosningar og svo fái menn sitt vald út úr þeim og geti síðan beitt því eins og þeim sýnist í fjögur ár? Lýðræðið sé það að kjósa sér einræðisherra með jöfnu millibili? Ég held að það sé ekki. Ég held m.a. að ákvæðin um aukinn meiri hluta séu ákaflega lýðræðisleg vegna þess að slík ákvæði eru sett um það sem er sérlega mikilvægt og þar sem þarf að skapast breiðari samstaða um en við daglegan rekstur ríkisins eða félaga þar sem við teljum að einfaldur meiri hluti nægi. Ég held að þetta sé staðfest í öllum fræðum um stjórnarskrá og sé hluti af þeirri vitund sem við Íslendingar höfum fyrir lýðræði okkar og samskiptum almennt.