132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:09]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Um það erum við líklega sammála, ég og hv. þingmaður, að Ríkisútvarpið á að vera áfram í eigu þjóðarinnar. Á því hefur nákvæmlega engin breyting orðið.

Hv. þingmaður vitnar til Sjálfstæðisflokksins og ég efa ekki að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins kunna að svara fyrir það, en ég vek athygli á því að flutningsmaður frumvarpsins um að breyta RÚV í hlutafélag er hvorki meira né minna en varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Í ræðu hæstv. ráðherra með því frumvarpi er tekið skýrt fram, eins og stendur í frumvarpinu, að Ríkisútvarpið sé ekki til sölu, það verði ekki selt. Ekkert slíkt ákvæði var þegar Símanum var breytt í hlutafélag. Þetta er skýr yfirlýsing. Það kann vel að vera að stöku þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji selja en stefna flokksins, sem birtist m.a. í frumvarpi varaformanns flokksins, er skýr.

Það er enginn ágreiningur um það í þinginu að Ríkisútvarpið eigi að vera áfram í eigu ríkisins. Yfirgnæfandi meiri hluti þingsins vill halda því þannig. Hins vegar er verið að bregðast við ástandi, reyna að skapa Ríkisútvarpinu það svigrúm að það geti starfað og sinnt þeim markmiðum sem við setjum Ríkisútvarpinu í blóðugri samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Hlutafélagaformið er það form sem hefur ágæta reynslu, það er sveigjanlegt, menn eru fljótir að bregðast við og það er þess vegna sem menn velja sér það form í eigu ríkisins. Þess vegna er verið að flytja þetta frumvarp.

En ég skil það að hv. þm. Jón Bjarnason skilur ekki eðli hlutafélaga, hann sér það bara sem markmið að sölu. Þar eins og oft áður hefur hv. þm. Jón Bjarnason rangt fyrir sér, einkum þegar kemur að einhverju sem heitir rekstur.