132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:26]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um opinber hlutafélög sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur fylgt úr hlaði. Samhliða ræðum við annað frumvarp sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er 1. flutningsmaður að ásamt fleirum. Það er líka á dagskrá síðar að sjálfsögðu en blandast saman vegna þess að menn eru að bera saman þessi tvö frumvörp þó svo að frumvarp hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og fleiri sé síðar á dagskrá og verður kannski rætt þar betur.

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra hafi verið rekinn til verka til að koma með frumvarp um opinber hlutafélög eins og fram hefur komið. Sem dæmi var lögð fram fyrirspurn frá hv. þm. Merði Árnasyni sem var rædd á síðasta þingi. Svarið sem hæstv. ráðherra gaf þá var efnislega á þá leið að á vegum ráðuneytisins væri ekki unnið að slíkri löggjöf enda hefði ekki verið sýnt fram á að nein sérstök þörf væri á henni. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að þetta skuli koma frá hæstv. viðskiptaráðherra. Jafnframt vil ég minna á frumvörp og tillögur sem þáverandi hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson flutti og hreyfði við þessu máli, svo og boðað þingmál þingmanna Samfylkingarinnar í upphafi þings sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti sem eitt af þeim frumvörpum sem Samfylkingin mundi leggja fram, þ.e. frumvarp um opinber hlutafélög.

Allt þetta, fyrirspurn hv. þm. Marðar Árnasonar, tillögur hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, boðað frumvarp og það frumvarp sem er á dagskrá í dag hefur gert það að verkum að hæstv. viðskiptaráðherra, sem hér gengur fram hjá, hefur sett í gang vinnu í ráðuneyti sínu um að koma með frumvarp til laga um opinber hlutafélög. Þeim sinnaskiptum ráðherrans, ráðuneytisins og ríkisstjórnar ber auðvitað að fagna sem var rekin til þessara verka.

Þá er það spurningin um það stjórnarfrumvarp sem hér liggur frammi: Er það nógu gott? Svar mitt við því er einfaldlega nei. Það er ekki nógu gott. Frumvarpið er óskaplega rýrt. Það er hvorki fugl né fiskur. Það er ljótt að segja það, virðulegi forseti, þetta er hálfgerð hrákasmíði. Svo virðist hæstv. ráðherra ekki hafa getað svarað mörgum spurningum sem hér hafa verið lagðar fram, eins og frá hv. þm. Merði Árnasyni. Þess vegna verð ég að segja að ólíkt þykir mér það frumvarp sem ég hef gert að umtalsefni, frumvarp okkar þingmanna Samfylkingarinnar, mér finnst það betur unnið og vænti þess og vona að það verði líka sent til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, verði rætt þar samhliða og sent út samhliða til umsagnar. Það megi því í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar taka þessi tvö frumvörp, blanda þeim saman og koma með eitt gott frumvarp, koma með tillögur til 2. umr. þar sem við förum betur í þetta en gert er í frumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra. Ég geri ekki ráð fyrir að okkar frumvarp verði tekið og samþykkt og hinu hent en ég hygg að það megi taka úr því töluvert og setja þar inn.

Ég vil t.d. spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra út í það: Hvers vegna er ekki í frumvarpi hennar ákvæði um að Alþingi og alþingismenn skuli hafa rétt til að spyrja út í opinber hlutafélög sem eru 100% í eigu ríkisins? Ég tek Íslandspóst sem dæmi. Eftir að honum var breytt í hlutafélag er öllum fyrirspurnum okkar þingmanna um Íslandspóst vísað frá og okkur er óheimilt að spyrja út í hann. Hins vegar, virðulegi forseti, var a.m.k. þeim þingmönnum sem eiga sæti í samgöngunefnd boðið á síðasta aðalfund Íslandspósts, ég veit ekki hvort öllum þingmönnum var boðið, og það var nokkuð merkilegt að sitja þann fund. En ég hefði viljað sjá það í frumvarpinu að alþingismenn og sveitarstjórnarmenn ættu rétt á að fá upplýsingar um það sem gerist á slíkum fundum, þegar um er að ræða opinber hlutafélög í eigu sveitarfélaga. En svo er ekki.

Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að ég er frekar hallur undir að hlutafélagaformið sé notað á ríkisfyrirtæki, þó að það verði að sjálfsögðu að skoða hvert og eitt dæmi. Opinber hlutafélög, eins og hér hefur komið fram, er mál sem mér er mjög hugleikið og tel að eigi að vera þannig að við eigum að geta breytt ýmsum ríkisfyrirtækjum í opinber hlutafélög með aðeins þrengri skilgreiningu en er í venjulegum hlutafélögum. Til dæmis eins og það ákvæði sem hér er í frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að heimilt sé að setja ákvæði í sérlög eða samþykktir fyrir opinbert hlutafélag þess efnis að aukinn meiri hluta þurfi á Alþingi eða í sveitarstjórn fyrir samþykki um sölu.

Ég tók eftir því í dag þegar hæstv. viðskiptaráðherra spurði hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur út í þetta ákvæði að ráðherrann misskildi það. Tökum dæmi um Ríkisútvarpið, ef því væri breytt í opinbert hlutafélag, og Alþingi tæki þá ákvörðun að það þyrfti kannski tvo þriðju meiri hluta á Alþingi til þess að selja Ríkisútvarpið. Þá væri Alþingi heimilt að gera svo, það væri bara einföld ákvörðun. Þarna er ákvæði um að það dugi ekki einfaldur meiri hluti hér á Alþingi til að gera slíkt. Það gæti verið bæði stjórnarmeirihluti eða það gæti myndast meiri hluti milli stjórnar og stjórnarandstöðu í málum, og þá væri það ákvæði sett þarna inn.

Sum ríkisfyrirtæki, breytt yfir í opinber hlutafélög, eru kannski þannig að maður vill bara alls ekkert sjá neinn möguleika á því að hvaða ríkisstjórn sem situr í landinu geti tekið sig til og selt það. Það er einfaldlega svo að stundum eru hlutirnir þannig að við viljum hafa þá í opinberri eigu og ekki að breyta því neitt. Hér hefur það t.d. komið fram í umræðunni í dag um Orkuveitu Reykjavíkur að það væri æskilegt ef henni væri breytt í opinbert hlutafélag og það þyrfti meiri hluta innan borgarstjórnar til að selja það. Menn eru þá kannski með það í huga að það gæti komið slæmur meiri hluti — þó að maður voni að það verði nú aldrei, að meiri hluti sjálfstæðismanna tæki við borginni — sem gæti hugsað sér að selja Orkuveitu Reykjavíkur og þá vilja menn segja það með þessu ákvæði að þá þurfi fleiri en átta borgarfulltrúa til þess að selja það fyrirtæki. Þannig er þetta ákvæði um tvo þriðju eða aukinn meiri hluta sett inn sem ég held að sé góður varnagli en ég tek skýrt fram að að sjálfsögðu þarf ekki að nota það í öllum tilfellum.

Mér dettur t.d. í hug þegar við vorum að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög sem síðan voru seld að þar hefði ekki þurft ákvæði inn um tvo þriðju eða aukinn meiri hluta hér á Alþingi. Þar gilti meiri hluti vegna þess að það eru fyrirtæki sem eru í samkeppnisrekstri og eru ekki með félagsþjónustu eða félagslega þáttinn svo tekið sé dæmið með Ríkisútvarpið.

Þannig má t.d. líka hugsa sér að sveitarfélögunum sé gert kleift að setja fleiri bæjareiningar eða bæjarstofnanir inn í hlutafélagaformið, ef það virðist vera til bóta. Við höfum verið að breyta hitaveitum og rafveitum í hlutafélög og stundum hafa þau svo verið seld, þau eru bara stundum notuð svoleiðis og ekkert meira um það. Ég spyr t.d. út í vatnsveitur, hvort það væri til að auðvelda rekstur þeirra að sveitarfélögum væri heimilt að breyta þeim í opinber hlutafélög með ákvæði um að innan sveitarstjórna þurfi kannski tvo þriðju hluta, ef einhverjum dytti í hug að selja það frá sér sem að sjálfsögðu á alls ekki að að gera vegna þess að vatnsveitur eru samfélagsleg þjónusta sem allir eiga að eiga aðgang að. En getur það verið til að auðvelda reksturinn að hafa vatnsveitur í hlutafélagaformi? Ég spyr og segi það sem sveitarstjórnarmaður að oft hefur manni fundist að sveitarfélögin fái ekki að njóta alls þess sem hlutafélög bjóða upp á, t.d. hvað varðar innskatt og útskatt í virðisaukaskatti. Það gæti verið auðveldara þannig en á alls ekki að vera þannig að einfaldur meiri hluti geti tekið sig til og selt, eins og nefnt er í þessu dæmi.

Inn í þetta blandast svo að menn eru svona frekar hræddir við Sjálfstæðisflokkinn og treysta honum ekki alveg til að fara með ríkisfyrirtæki í hlutafélagaformi og það eru náttúrlega til alls konar ályktanir, t.d. frá ungum sjálfstæðismönnum og öðrum sem helst vilja selja allt sem ríkið kemur nálægt og setja það út á markað.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að þessi tvö frumvörp verði rædd samhliða í efnahags- og viðskiptanefnd. Og af því að ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, situr að sjálfsögðu hér yfir þeim málum sem fara til hans nefndar, þá er sú ósk sett fram að kallað verði eftir umsögnum um bæði þessi frumvörp og að þau verði rædd þannig í efnahags- og viðskiptanefnd og að bæði frumvörpin komi aftur hingað til þings eftir vandlega meðferð. Þá ósk vildi ég leggja fram hér, virðulegi forseti, bæði til ráðherra og hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar.