132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er það oft svo að — já, ég er óánægður með frumvörp sem frá hæstv. iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra koma. Kannski mest þau sem snúast um byggðamál, samanber það sem átti að ræða hér á fimmtudaginn um byggðaáætlun, sem átti náttúrlega að ræða á síðasta ári og átti að taka gildi um síðustu áramót en hefur ekki enn þá verið rædd hér og er þess vegna ekki í gildi. Og ég var líka óánægður t.d. með raforkufrumvarpið sem kom frá hæstv. iðnaðarráðherra, vegna þess að gögn sem fylgdu með því frumvarpi og komu til iðnaðarnefndar þar sem ég sat og vann með því máli, voru beinlínis röng. Því miður hefur það komið í ljós að það frumvarp hefur orðið til þess að kostnaður atvinnulífsins eykst mjög eins og við höfum verið að ræða hér.

Þegar hæstv. ráðherra talar um að við samfylkingarmenn höfum ekki skilning á þörfum atvinnulífsins, þá vísa ég því til föðurhúsanna. Getur það verið, virðulegi forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra, sem jafnframt er iðnaðarráðherra, hafi ekki skilning á þörfum atvinnulífsins núna þegar laxeldisfyrirtækin eru að loka hvert á fætur öðru og eru að flytja starfsemi sína til Færeyja, m.a. vegna ofboðslegrar hækkunar á raforku? Getur það verið að hæstv. ráðherra hafi ekki skilning á þörfum atvinnulífsins þegar hún lýsir því yfir að hún sé hætt að berjast fyrir því að jafna flutningskostnað í landinu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn setti fótinn fyrir það, eins og hæstv. iðnaðarráðherra lýsti á fundi með stjórn Eyþings á Akureyri með okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis? Getur verið að ráðherrann hitti fyrir sjálfa sig sem hefur ekki skilning á þörfum atvinnulífsins á landsbyggðinni miðað við það sem ég hér hef sagt?