132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:43]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um það sem hæstv. ráðherra sagði hér um málfrelsi, ég held að ég verði bara að svara því játandi að auðvitað er ég hlynntur því að alþingismenn og sveitarstjórnarmenn hafi málfrelsi á fundum í opinberum hlutafélögum.

Í öðru lagi spyr hæstv. ráðherra um það hvernig eigi að koma fyrir 40% reglunni í þriggja manna stjórn. Liggur það ekki í augum uppi, virðulegur forseti, að það verða þá aldrei kosnir þrír af sama kyni í viðkomandi stjórn, liggur það ekki í augum uppi? Við erum ekki að tala um að það verði þrír karlar eða þrír kvenmenn í viðkomandi stjórn, heldur að það blandist, tveir á móti einum, eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í: Það eru 33%.) Já, það er allt í lagi með 33%. En það liggur í augum uppi að það verður aldrei svoleiðis nema við verðum með einhverja framsóknarmenn sem hægt er að skipta í 33% eða 40%.

Hæstv. ráðherra fjallar hér um Ríkisútvarpið og frumvarpið um það. Þar telur ríkisstjórnin þörf á því að setja inn að það hlutafélag verði ekki selt nema með samþykki Alþingis. Gott og vel, sem betur fer er það svoleiðis. Ég segi fyrir mitt leyti, sem hlynntur því t.d. að breyta ríkisbönkunum yfir í hlutafélög og selja þá, hvort svo sem það var gert á réttum tíma eða það hefði átt að gera síðar, það er annar handleggur, þá er ég hlynntur því alveg eins og ég get verið hlynntur því að taka einhverja ríkisstofnun og breyta henni í hlutafélag en ég vil ekki undir neinum kringumstæðum að hún verði seld þannig. Þá vil ég ekki eingöngu eiga það undir að meiri hluti Alþingis eða sveitarstjórnar taki sig til og geti selt það, heldur þurfi aukinn meiri hluta, meiri samstöðu um það. Það svarar öllu.

Ég tók hér dæmi ef einhverjum dytti í hug að ætla að fara að selja vatnsveitur, þá fyndist mér það eðlilegt að það þyrfti aukinn meiri hluta innan viðkomandi sveitarstjórnar til þess að selja en ekki eingöngu þann meiri hluta sem situr. Ég held að þetta svari öllu því sem þarf að svara um þetta.