132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[17:20]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir góð viðbrögð við þessu frumvarpi, enda held ég að það sé býsna metnaðarfullt. Hvað varðar það sem hv. þingmaður spyr um og að hún líti á tillögurnar sem komu frá viðskiptalífsnefndinni sem þríþætt mál, þá tókum við, eins og hún veit og allir vita, samkeppnislagaþáttinn fyrst og lukum honum í fyrravor. Núna koma ákvæðin sem varða hlutafélagalög og einkahlutafélagalög. Varðandi ársreikninga og endurskoðendur þá verð ég að viðurkenna að það eru lög sem heyra undir annan ráðherra og ég get ekki svarað því nákvæmlega svona fyrirvaralaust hvernig stendur með þá vinnu. En það sem hún spyr um að öðru leyti og varðar starfskjarastefnu stjórna, að stjórnarmenn væru sjálfir að ákveða eigin greiðslur, eins og ég skildi hana, þá er það mál sem borið er undir aðalfund þannig að hluthafar bera ábyrgð á því allir. Það getur verið að ég hafi misskilið hv. þingmann, það er svo margt í þessu máli. En eins og ég skildi hana var hún að fjalla um ákvarðanir sem teknar eru á aðalfundi.