132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[18:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp, um hlutafélög og einkahlutafélög, sem byggjast á tillögum nefndar sem ráðherra skipaði um þau atriði sem frumvörpin fjalla um. Ég tel að þessi frumvörp séu mjög til bóta. Það er nefnilega þannig, öndvert við það sem sumir halda, að atvinnulífið gengur út á heiðarleika og skilvirkar reglur svo menn viti hvað er rétt og hvað er rangt og að eftirlit og annað slíkt sé hratt og að góðs siðferðis sé gætt í hvívetna. Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið að fá einmitt reglur af því tagi sem hér er verið að ræða um, að upplýst sé um t.d. stöðu þeirra sem bjóða sig fram til stjórnar eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég get tekið undir nánast allt hér nema það að ég set ákveðinn fyrirvara við að stjórnarmenn séu að taka ákvörðun um eigin kjör í þessum tillögum. Það má að sjálfsögðu ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem fær þetta mál til umsagnar, hvort stefnumiðin skuli innifela stjórnarmennina sjálfa sem semja þau, en þau þurfa að sjálfsögðu að fást samþykkt á aðalfundi. Síðan er kannski spurningin um það hvernig það ferli er þegar stefnumiðin eru lögð fyrir aðalfund, hvort einstakir hluthafar hafa þá breytingarrétt eða tillögurétt um breytingar á stefnumiðunum á aðalfundinum þannig að þetta sé nú virkt.

Svo er það spurningin um hvort upplýst sé um þau kjör sem greidd hafa verið á liðnu ári fyrir aðalfundinn þannig að þetta sé bæði stefnumið fram í tímann og síðan skýrsla um hvernig til tókst.

Þær tillögur sem hér eru lagðar til eru allar til mikilla bóta, það er t.d. verið að tryggja hag minni hluthafa með því að draga úr nauðsynlegum fjölda þeirra sem geta óskað eftir ýmsum breytingum og athugasemdum úr 1/4 í 1/10. Ég fagna því þessu frumvarpi að öllu leyti.

Ég rak augun í eitt atriði, frú forseti, og það er ákvæðið um starfslokasamninga. Ég hef aldrei skilið það fyrirbæri. Ég skil alveg að menn borgi mönnum fyrir að taka til starfa og vinna en ég hef aldrei skilið að mönnum sé borgað fyrir að hætta störfum hjá fyrirtæki. Þeir starfslokasamningar sem maður heyrir af eru yfirleitt fullnæging á kröfum sem menn hafa áunnið sér í starfi og eru kallaðir starfslokasamningar, t.d. þegar lífeyrisréttur er greiddur út, uppsagnarfrestur er greiddur út eða eitthvað slíkt. Það mundi ég ekki kalla starfslokasamninga heldur er einungis verið að fullnægja ráðningarsamningi. Ég mundi því vilja skoða þetta ákvæði um starfslokasamningana í hv. nefnd.

Að öðru leyti held ég að þetta sé mjög til bóta og ég reikna með því að nefndin muni fara í gegnum það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi hér um frávik frá tillögum nefndarinnar sem skipuð var, sem mér sýnast nú ekki stórvægileg en það er sjálfsagt að skoða þau. Það varðar t.d. það hvaða félög eigi að gera samninga eða áætlanir af þessu tagi. Það er eitthvað veikara í frumvarpinu en í tillögum nefndarinnar en það á sér örugglega eðlilegar skýringar. Það er spurning hvað þetta á að vera víðtækt.

Hvað samspilið við Kauphöllina snertir þá reikna ég með að þau skilyrði sem hér eru sett séu eins og alltaf lágmarksskilyrði. Menn geta sett strangari skilyrði, t.d. um þá sem vilja skráningu í Kauphöll — að þar séu sett viðbótarskilyrði sem menn þurfi að uppfylla til að fá þar skráningu.

Ég vil endurtaka það að ég fagna þessu frumvarpi, það er mjög til bóta. Það mun væntanlega verða til þess að skýra marga hluti, senda skilaboð út í atvinnulífið um hvað er rétt og rangt í viðskiptalífinu. Ég endurtek það að viðskiptalífið byggist að miklu leyti á heiðarleika.