132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[18:09]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. ráðherra skautar hér á mikilli hraðferð í svörum sínum við þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram. Ég geri mér ekki miklar vonir um að fá frekari svör frá henni þannig að við verðum að taka þetta upp í nefndinni og fara yfir það lið fyrir lið af hverju ekki voru teknar upp þær tillögur sem nefnd ráðherrans lagði til.

Þriðja greinin er að mörgu leyti lykilgrein í þessu og ég held að þar sé verið að draga verulega úr því sem nefndin lagði til í sínum tillögum, sem eru mjög skýrar, að hluthafa verði skylt að fá samþykkt hluthafafundar og starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Þetta stendur ekki í 3. gr. frumvarpsins. Talað er um að það eigi að samþykkja stefnumið og þau stefnumið á að samþykkja á aðalfundi félagsins. Ráðherra sagði að vísu hér úr ræðustól að hluthafafundur ætti að samþykkja starfslokasamninga. Þá liggur það fyrir og þá skulum við bara skrifa það berum orðum inn í frumvarpið þannig að það fari ekki á milli mála.

Varðandi sparisjóðina þá standa þeir kannski einir eftir, þeir einu sem ekki þurfa að upplýsa um kjör, starfslokasamninga og hlunnindagreiðslur, eins og verið er að reyna að koma á með frumvarpinu — sem við hljótum þá að þurfa að betrumbæta — og eins og gert er varðandi skráð félög í Kauphöllinni. Ég spurði ráðherrann að því hvort hún mundi leggja fram frumvarp varðandi sparisjóðina þess efnis að þeir þurfi að upplýsa með sama hætti um kjör stjórnenda og stjórna hjá sér. Ég held að það sé mikilvægt að fá það fram.

Ég spurði ráðherrann einnig um ýmislegt annað sem snertir verðbréfamarkaðinn sem við hefðum nú átt að gefa okkur tíma í að ræða hér, en hæstv. ráðherra vill greinilega ekki ræða. Ætti ekki að setja ákvæði um lánafyrirgreiðslur til stjórnenda, þegar þeir eru að kaupa hlutabréf í eigin fjármálastofnun, alveg eins og er t.d. varðandi félög í Kauphöllinni. Ég spurði líka hvort ekki væri rétt að takmarka þann tíma sem viðskiptabankar geta átt eignarhlut í óskyldum fyrirtækjarekstri og hæstv. ráðherra sá enga ástæðu til að (Forseti hringir.) svara því frekar. Það er því erfitt að eiga orðastað við hæstv. ráðherra.