132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[18:13]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er engu nær um það hvort hæstv. ráðherra telur að það eigi að setja lög um sparisjóðina að því er varðar starfskjör stjórnenda. Ekkert slíkt er á döfinni, segir ráðherra, en hefur hún skoðun á því hvort það eigi að setja slík ákvæði inn í löggjöfina um sparisjóðina? Það er mikilvægt að fá það fram að þetta séu þá einu lánastofnanirnar sem standa eftir þar sem ekki þarf að upplýsa um kjör stjórnenda. (Viðskrh.: Ég þori ekki að opna á sparisjóðabreytingar.) Hæstv. ráðherra er alveg óhætt að gera það, það getur vel verið að við þingmenn þurfum þá að taka okkur til og skoða það fyrst ráðherrann ætlar að heykjast á því að þeir hafi sömu upplýsingaskyldu og aðrar lánastofnanir sem ég tel auðvitað ófært.

Mér finnst líka vont að geta ekki átt orðastað við ráðherrann um nokkur atriði sem snerta fjármálamarkaðinn og viðskiptalífið, það er jú það sem við erum að ræða hér. Ég spurði t.d. um það sem Kauphöllin kallar eftir hjá skráðum félögum, eins og lánafyrirgreiðslu stjórnenda lánastofnana og bankastofnana, sem eru að selja sjálfum sér hlutabréf og fá til þess lán og enginn veit á hvaða kjörum — eða hvort lánastofnun á yfirleitt að vera heimilt að lána til stjórnenda til þess að þeir geti keypt hlutabréf sem þeir græða á kannski á mjög stuttum tíma svo hundruðum milljóna skiptir. Við þekkjum a.m.k. tvö nýleg dæmi um það og hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu við mig ekki fyrir löngu að hún vildi skoða hvort það ætti að herða ákvæði í löggjöf þar að lútandi. Hæstv. ráðherra skautar alltaf fram hjá því hér þó að ég spyrji aftur og aftur hvort hún sé eitthvað að láta skoða það. Enda er það svo að ég er sest sjálf niður við að smíða frumvarp um þessa og aðra þætti sem er nauðsynlegt að ná fram til þess að hér séu eðlilegar leikreglur á fjármálamarkaðnum, til þess að tryggja betri minnihlutavernd, t.d. í stjórnun bankastofnana. (Forseti hringir.) Mér þykir það miður, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra komi sér hjá því aftur og aftur að svara spurningum mínum.