132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

436. mál
[18:18]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp þar sem það hefur komið allnokkuð til umræðu hér í þingsalnum í dag í tengslum við frumvarp viðskiptaráðherra um sama efni, þ.e. bæði þessi frumvörp fela í sér breytingu á lögum um hlutafélög og gera ráð fyrir því að til verði ákvæði í hlutafélagalögunum um opinber hlutafélög. Það er eiginlega kannski það eina sem þessi frumvörp eiga þó sameiginlegt og í mörgum veigamiklum atriðum greinir frumvörpin á.

Ég fór nokkuð yfir það fyrr í þingsalnum í dag hver helsti munurinn er á þessum tveimur frumvörpum og þarf í sjálfu sér ekki að endurtaka það, virðulegur forseti, og vil því til þess að liðka hér fyrir þingstörfum leggja til að þessu frumvarpi verði ásamt með frumvarpi viðskiptaráðherra vísað inn í nefnd, sem væntanlega er efnahags- og viðskiptanefnd, og þaðan verði það sent til umsagnar samhliða því frumvarpi og til umfjöllunar á sama tíma í nefndinni þannig að hægt sé að skoða þessi tvö frumvörp samhliða.