132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Löggilding starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

463. mál
[18:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnaðarráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

Lagafrumvarp þetta, sem samið er í iðnaðarráðuneytinu, miðar að því að löggilda starfsheiti grafískra hönnuða með því að bæta þeim við í upptalningu í fyrrnefndum lögum, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Frumkvæði að samningu frumvarpsins kom frá Félagi íslenskra teiknara (FÍT) sem er fagfélag grafískra hönnuða og myndskreyta en einnig einstaklingum sem vilja efla íslenska hönnun og auka þar með verðmæti íslenskrar framleiðslu, svo og bæta auglýsingamenningu í landinu.

Verkefni grafískra hönnuða eru mjög fjölbreytt, þ.e. umbúðir, vöru- og firmamerki, peningaseðlar, frímerki, auglýsingar og margt fleira. Talið er æskilegt að greina með löggildingu starfsheitisins grafískur hönnuður á milli þeirra sem hafa enga eða litla menntun í grafískri hönnun en kalla sig þó grafíska hönnuði og hinna sem hafa langa háskólamenntun eða menntun á háskólastigi að baki. Koma neytendasjónarmið m.a. hér við sögu, bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.

Hvað nám snertir hafa iðnskólar og tölvuskólar á Íslandi að undanförnu boðið upp á námskeið í grafískri hönnun eins og auglýst er í námskrá þessara skóla. Grafísk hönnun er þar aðeins sem sérhæfð námskeið eða undirbúningsnám fyrir framhaldsnám á háskólastigi í greininni. Það framhaldsnám er aðeins boðið upp á í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum á Akureyri og síðan í erlendum listaháskólum. Margmiðlunarnám er orðinn vinsæll kostur en þar er þó um að ræða tölvunám sem lagt er stund á í tvö til tvö og hálft ár. Fellur það nám undir tölvumiðlun en ekki listrænar hugmyndagreinar eins og þegar um grafíska hönnun er að ræða. Stutt námskeið í grafískri hönnun sem tekur frá þremur mánuðum til eins árs jafngildir alls ekki því viðamikla námi sem grafískur hönnuður nemur á þremur námsárum í háskóla og hann er síðan krafinn um sem sérfræðingur í atvinnulífinu þar sem vinna þarf samkvæmt ýmsum lögum og reglum.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að þeir einstaklingar sem útskrifast hafa sem grafískir hönnuðir úr Listaháskóla Íslands, þar áður frá Myndlista- og handíðaskólanum og frá 1995 úr Myndlistaskólanum á Akureyri teljist hafa réttindi til starfsheitisins grafískur hönnuður á grundvelli sambærilegs náms. Eru þetta um 400 einstaklingar. Ekki er gert ráð fyrir því að þeir þurfi að sækja um löggildinu starfsheitis til ráðuneytis og heldur ekki að þeir eigi heimtingu á löggildingarskjali þar eð um sjálfkrafa löggildingu yrði að ræða fyrir þá á grundvelli laganna.

Gert er ráð fyrir að Félag íslenskra teiknara (FÍT) í samstarfi við Félag grafískra teiknara (FGT) verði umsagnaraðili um erindi þegar menn hafa ekki sjálfkrafa rétt á grundvelli laganna til að bera starfsheitið grafískur hönnuður. Mun félagið setja sér reglur um lágmarksnám vegna starfsheitisins í samvinnu við iðnaðarráðuneytið.

Verði frumvarpið að lögum leiðir það til þess að þeir sem hafa enga menntun í grafískri hönnun eða minni menntun en gert er ráð fyrir til löggildingar á starfsheitinu grafískur hönnuður verði að nota önnur nöfn en grafískur hönnuður. Um ýmsa kosti er því að ræða fyrir þessa aðila varðandi val á starfsheiti.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Ég mælist til þess, hæstv. forseti, að þessu frumvarpi verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar að lokinni þessari umræðu.