132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[19:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega til margs konar markaður og hægt að nálgast hann með mismunandi áherslum, markaður framleiðandans og markaður neytandans. Hér er áherslan á markað framleiðandans án tillits til þess hvað neytandinn vill, sem ég hélt að væri nálgun sem væri hv. þm. Pétri H. Blöndal tamari. En hér verður það samkvæmt þessu frumvarpi meirihlutavaldið á Alþingi, sama vald og býr að baki ríkisstjórn hverju sinni, sem ákveður, með útboði vissulega en á grundvelli mjög almennra reglna, hvaða aðilar fá peninga til að búa til fréttatengda þætti svo dæmi sé tekið. Mér finnst menn vera að fara út á mjög háskalegar brautir með þessum hætti.

Síðan er þetta gamla með þjóðina, skattgreiðandann og alla einstaklingana nema hvað hv. þm. Pétur H. Blöndal ætlar að taka alla einstaklingana, hann ætlar að taka alla skattgreiðendurna og taka af þeim fjármuni og setja þá í hendur á pólitískt kjörinni nefnd sem á að miðstýra gerð dagskrárefnis í landinu, þar á meðal fréttaefnis. Mér finnst að menn séu farnir að færa sig aðeins austur yfir.