132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Áfengislög.

71. mál
[20:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er millileið, segir 1. flutningsmaður þess, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Og bætir við að sú millileið sé sérstaklega skynsamleg. Það ætla ég að láta liggja á milli hluta. En um hitt getum við verið sammála, ég og hv. flutningsmaður, að ástandið í þessum málum, eins og það er nú, er óviðunandi.

Við búum við löggjöf þar sem bann er lagt við auglýsingum á áfengi en því banni er ekki fylgt eftir. Þá er spurningin? Hvað er til ráða? Hægt er að fara tvær leiðir. Að herða á banninu, stoppa upp í lögin þar sem þess er þörf eða gefa eftir og heimila auglýsingar. Það er hægt að gera það að öllu leyti eða fara millileið, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefnir, og heimila auglýsingar með ákveðnum takmörkunum. Ég vil vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur annað frumvarp þar sem fyrri leiðin er farin, þar sem stoppað er upp í göt á núgildandi áfengislöggjöf, og ætla ég að víkja að því hér á eftir. Ég vil þó segja að þær takmarkanir sem frumvarpshöfundar setja í lögin, eða gera tillögu um, eru að mörgu leyti ágætar. Þær ganga í fyrsta lagi út á að heimila einvörðungu auglýsingar á því sem kallað er létt áfengi, vín og bjór, en ekki á sterkum drykkjum og síðan eftir föngum að takmarka auglýsingarnar, bæði við staði og tíma þar sem þeim er ekki beint að börnum og unglingum. Allt er þetta góðra gjalda vert.

Ég tel hins vegar að við eigum að fara aðra leið. Þó vil ég geta þess að það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að við erum í alþjóðlegu umhverfi. Hingað koma blöð og tímarit með áfengisauglýsingum. Við erum í sambandi við netið og þar er áfengi auglýst. En ég held hins vegar að við eigum að vara okkur á því að ganga of langt í því að gefa eftir í prinsippum sem við teljum vera rétt, jafnvel þótt að þau fyrirfinnist annars staðar og þótt áreitið komi að utan. Staðreyndin er sú að mjög víða í heiminum eru átök um hvort leyfa eigi auglýsingar á tóbaki og áfengi. Við erum ekkert ein á báti í þeirri umræðu. Með því að herða á banni á áfenginu og koma í veg fyrir auglýsingar með tóbak þá erum við að leggjast á árar með þeim sem vilja takmarka áróður fyrir tóbaki og áfengi. Þannig að við eigum líka að sjá baráttu okkar í þessu efni í alþjóðlegu samhengi.

Hv. þingmaður sagði að lögin sem nú eru við lýði, áfengislög nr. 75 frá 1998, séu meingölluð. Hafi gengið sér til húðar að þessu leyti. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt. Það sem er meingallað er afstaða áfengissalanna sem eru ótrúlega óábyrgir í sinni framkomu. Því það er eitt að berjast fyrir breyttum lögum og breyttu fyrirkomulagi, eins og hv. þingmaður gerir með því að leggja fram þessar tillögur, og það er í sjálfu sér virðingarvert. Hitt, að reyna allt hvað menn geta til að komast fram hjá lögunum eða mér liggur við að segja brjóta lögin, eins og gert er, það er nokkuð sem ég get ekki annað en áfellst menn fyrir. Þetta gera menn t.d. með því að auglýsa bjór undir því yfirskini að um léttöl sé að ræða. Þá horfa menn á 20. gr. áfengislaganna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.“

Og síðan segir í 3. mgr. þessarar greinar laganna, með leyfi forseta:

„Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Hér leika menn þann leik að birta mynd af bjórdósinni og síðan með örsmáu letri undir: Léttöl. Þannig skjóta menn sér á bak við þessa lagagrein. Í því frumvarpi sem ég vísaði til áðan, og er flutt af mér ásamt hv. þingmönnum Þuríði Backman, Björgvini G. Sigurðssyni, Dagnýju Jónsdóttur, Merði Árnasyni og Þórarni E. Sveinssyni, gerum við tillögu um að bæta við þessa 3. mgr. 20. gr. áfengislaganna eftirfarandi, með leyfi forseta:

„... eða hætta á ruglingi á milli áfengu framleiðslunnar og þeirrar sem verið er að auglýsa vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna.“

Með öðrum orðum þá viljum við útiloka þennan skollaleik sem þarna er leikinn. Þetta er leið sem Norðmenn hafa farið og er vakin athygli á í skýrslu sem unnin var á vegum embættis lögreglustjóra á árunum 2000–2001 — var birt í nóvember 2001, ef ég man rétt — og er tilefni til tilvitnana, bæði af hálfu okkar sem flytjum það frumvarp til laga sem ég er að vitna í og einnig höfundar þess frumvarps sem er núna til umræðu. Við viljum með öðrum orðum fara norsku leiðina en frumvarpshöfundar horfa til Evrópudómstólsins og niðurstöðu sem þar hefur komið fram og spyrja hvort ekki sé ástæða til að reyna að ná þeim markmiðum sem menn vilja ná til að vernda heilsu almennings fyrir skaðvænlegum afleiðingum áfengisneyslu á annan hátt en með auglýsingabanni. Þar erum við komin að þessu frumvarpi.

Einu furða ég mig svolítið á. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að nánast allir þeir sem töluðu fyrir afnámi auglýsingabanns teldu að það stríddi gegn tjáningarfrelsi sem varið væri í stjórnarskrá landsins. Þá er komið að því sem ég ekki skil. Ef það stríðir gegn tjáningarfrelsinu að banna fólki að hvetja þjóðina til að neyta brennivíns, hvers vegna nær bannið þá aðeins til áfengis yfir 22%? Er það ekki jafnmikið mannréttindabrot að leyfa þeim sem selur áfengi sem er 20% að styrkleika en banna hinum sem er með 24%? Hvar liggur sú mannréttindalína í stjórnarskránni? Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það þó ég hafi séð í greinargerð með frumvarpinu að vísað er í dómsniðurstöðu frá EFTA-dómstólnum. (Gripið fram í.) Ég skil ekki alveg röksemdafærsluna þegar menn eru á annað borð farnir að tala sig upp í mannréttindi og brot á tjáningarfrelsi í þessu efni.

Hæstv. forseti. Ég tel að sú leið sem við viljum fara, að banna auglýsingar á áfengi og tóbaki, þó það sé ekki til umræðu hér, sé í átt til framtíðar. Ég hef trú á að þetta eigi eftir að verða ofan á víða í heiminum. Það er augljóst og ég held að enginn deili um það að mikil áfengisneysla er mjög skaðleg. Það segir sig sjálft að auglýsingar á þeirri vöru eru til þess fallnar og gerðar með það eitt í huga að auka áfengisneyslu. Hitt talið, um að það sé neytendum í hag að fá upplýsingar um vöruna, er ekki mjög sannfærandi í mín eyru ekki síst þegar maður horfir á auglýsingarnar og þær upplýsingar sem þar eru framreiddar. Þær eru akkúrat engar. Þær eru ekki annað en mynd af brennivínsflösku eða bjórdós og síðan hvatning um að tæma þær sem flestar, flöskurnar og dósirnar. Finnst mönnum þetta virkilega vera þess virði að kveikja upp einhverja hugsjónaelda til að ná fram breytingum á þessum málum?

Ég get því ekki stutt frumvarpið þó að ég greini vel ágætan ásetning sem leynist í stöku grein.